Home Fréttir Í fréttum Tekst ekki að flýta nýju tengivirki á Hryggstekk

Tekst ekki að flýta nýju tengivirki á Hryggstekk

15
0
Mynd: Austurfrett.is

Ekki er útlit að nýtt tengivirki Landsnets á Hryggstekk í Skriðdal verði spennusett fyrr en árið 2027. Tilraunir voru gerðar til að flýta því en ástand heimsmálanna kemur í veg fyrir það. Tengivirkið myndi stækka áhrifasvæði virkjana á Norður- og Austurlandi.

<>

Flöskuhálsar í orkuflutningskerfi landsins eru skilgreindir með svokölluðum sniðum. Orkuöflun, flutningur og nýting markast því af því hvort virkjun og nýtingaraðili sé innan sama sniðs.

Norður- og Austurland, frá Blöndu austur í Fljótsdalsstöð, eru innan sama sniðs. Út frá þessum tveimur stöðvum í vesturátt frá Blöndu og suðurátt frá Fljótsdalsstöð eru hins vegar takmarkanir sem haft hafa áhrif á flutning raforku á milli landshluta.

Þannig er takmarkað hversu mikið afl er hægt að flytja frá Fljótsdalsstöð þegar vel árar þar til að styðja við virkjanir með hálftóm lón á Suðurlandi, eins og reyndin hefur verið allra síðustu ár.

Úkraínustríðið tefur afhendingu
En hindranirnar geta verið nær. Þannig hefði síðasta vetur verið hægt að flytja meira afl til fiskimjölsverksmiðja á Austfjörðum en þær eru utan við sniðið sem Fljótsdalsstöð er innan.

Þess vegna hefur verið reynt að flýta endurnýjun tengivirkisins á Hryggstekk. Til stendur að tengja Fljótsdalslínur 3 og 4, 220 kV línur, sem liggja frá Fljótsdalsstöð niður í álverið á Reyðarfirði við það og auka þannig flutningsgetu inn á Austurlandskerfið til muna.

Um leið léttir álagi af Fljótsdalslínu 2, sem er annar flöskuhálsinn sem afmarkar sniðið í dag. Með nýju tengivirki myndu Austfirðir þannig færast inn fyrir norðaustursniðið.

Skipulagsvinna og undirbúningur við framkvæmdirnar eru í gangi enda hefur í kerfisáætlun Landsnets verið stefnt á að byrja framkvæmdir á næsta ári.

Gnýr Guðmundsson, forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti, segir að reynt hafi verið að flýta framkvæmdum á Hryggstekk en það virðist ómögulegt vegna vandaræða í aðfangakeðju. Verð hafi hækkað og afhendingartími lengst m.a. vegna stríðsins í Úkraínu.

Holtavörðuheiðarlína myndi breyta miklu
Hann segir að undanfarna mánuði hafi með nýjum tæknilausnum verið reynt að keyra meira rafmagn frá norðaustursniðinu til suðvesturs. Þannig hafi flutningur um áðurnefnt snið verið um og yfir 150 MW í stað 130 MW.

Aðspurður segist hann efast um að tengivirkið á Hryggstekk hefði breytt nokkru um þær skerðingar sem hafnar eru innan suðvesturssniðsins og boðaðar eru eftir mánuð í norðaustursniðinu. Vatnsskorturinn sé það mikill í miðlunarlónum eftir þurrt árferði. Yfirkeyrsla sniðsins á milli landshluta í sumar hafi þó lagað stöðuna eitthvað.

Að vestanverðu er Blöndulína 1, frá Blöndu að Laxárvatni, flöskuhálsinn og að sögn Gnýs enn meira takmarkandi fyrir flutning milli sniða því styttra sé að flytja af því svæði til suðvesturs.

Þar hefur um nokkurt skeið staðið til að byggja alveg nýja línu, Holavörðuheiðarlínu 3, frá Blöndu til Hrútafjarðar. Þar með myndu Norðurland vestra og Vestfirðir bætast við í norðaustursniðið ásamt Austfjörðum og þá yrði ástandið töluvert betra.

Gnýr bætir við að víða sé þörf á endurnýjun og takmarkanir á flutningi milli svæða því byggðalínan sé að stofni til orðin 50 ára gömul. Á þeim tíma hafi raforkunotkun í landinu meira en fimmfaldast.

Heimild: Austurfrett.is