Knattspyrnusamband Íslands birti í dag myndir af gangi mála við endurnýjun Laugardalsvallar. Miklar framkvæmdir standa yfir við að moka burt grasi vallarins og undirbúa nýtt undirlag og gras.
Stórvirkar vinnuvélar hafa verið við vinnu á vellinum undanfarna daga. Búið er að fjarlægja grasið af vellinum og moka upp miklu magni af jarðvegi að auki.
Sett verður hitakerfi á völlinn og yfir það verður svo lagt nýtt blendingsgras (hybrid). Það er blanda af náttúrulegu grasi og gervigrasi.
Með breytingunni ætti að vera hægt að leika á vellinum stærri hluta ársins en hingað til þar sem blendingsgrasið er mun slitsterkara en náttúrulegt gras.
Gras vallarins verður fært nær stærri stúkunni vestanmegin við völlinn. Um leið verður hlaupabrautin umhverfis völlin fjarlægð og völlurinn eingöngu notaður fyrir fótbolta.
Heimild: Ruv.is