Home Fréttir Í fréttum Færri fengu hlutdeildarlán en vildu – 4 milljarðar í úrræðið á næsta...

Færri fengu hlutdeildarlán en vildu – 4 milljarðar í úrræðið á næsta ári

33
0
Íbúðir í Neskaupstað voru sérstaklega byggðar með úrræðið í huga en bæði verktakinn og kaupendur biðu þess að opnað yrði fyrir umsóknir að nýju. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Mun færri fengu en vildu þegar hlutdeildarlánum til húsnæðiskaupa var úthlutað fyrir helgi. Þetta var fyrsta úthlutun eftir langt hlé sem var gert á úrræðinu og framvegis verður fjármagni skammtað í mánaðarlegar úthlutanir.

<>

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þurfti að hafna 84 umsækjendum um hlutdeildarlán og aðeins 42% umsókna voru samþykkt, meðal annars vegna þess að októberpotturinn kláraðist. Aftur verður úthlutað í næsta mánuði en þá aðeins helmingi þeirrar upphæðar sem nú var til úthlutunar.

Hlutdeildarlán stopp í allt sumar
Í þessum mánuði voru 800 milljónir til skiptanna, óvenju há upphæð enda var þetta fyrsta úthlutunin eftir stopp á úrræðinu. Úthlutun var hætt í vor vegna þess að HMS hafði ekki fengið fjármuni til hennar afhenta frá ríkinu. Í sumar var settur auka milljarður í hlutdeildarlán en þau auðvelda tekjulægri fyrstu kaupendum að eignast hagkvæmt húsnæði.

Margir höfðu beðið lengi eftir úthlutun og sumir misstu jafnvel af húsnæði sem var selt öðrum. Þá kvörtuðu verktakar undan auknum kostnaði við að bíða með tilbúnar, óseldar íbúðir sem voru sérbyggðar fyrir úrræðið.

Sumir með of háar tekjur en aðrir með of lágar
Fyrstu úthlutun eftir stoppið lauk á föstudag og ljóst var að færri fengu en vildu. Alls bárust 145 umsóknir og var 61 umsókn samþykkt. Einhverjum umsóknum var synjað vegna þess að umsækjendur voru með of háar tekjur samkvæmt reglum eða of lágar tekjur samkvæmt viðmiðum Seðlabankans.

Í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir að umsóknir með staðfest kauptilboð hafi verið í forgangi. Þá var einnig litið til reglu um að 20% lána á hverju ári skuli veita til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins. Forgangsreglurnar dugðu til að úthluta öllu og því þurfti ekki að draga á milli umsækjenda.

400 milljónir til úthlutunar í nóvember
Þeim sem ekki fengu lán var boðið að flytja umsókn yfir á næsta tímabil eða sækja um að nýju. Opnað verður fyrir næstu úthlutun 7. nóvember og verður opið í 12 daga.

Þá verða til úthlutunar 400 milljónir eða helmingur þeirrar upphæðar sem var nú. Á næsta ári verður þessi háttur hafður á. Fjórum milljörðum verður skipt niður á mánaðarlegar úthlutanir og því ætti ekki að þurfa að stöðva þær mánuðum saman eins og gerðist í ár.

Heimild: Ruv.is