Húsheild/Hyrna, eina fyrirtækið á Norðurlandi sem smíðar timburglugga, festi nýverið kaup á tveimur nýjum vélum; annars vegar vél sem framleiðir glugga og hurðir, hins vegar samsetningarpressu.
Með þessum nýju vélum nær fyrirtækið að auka afköst í gluggasmíðinni um 40% frá því sem nú er, segir Eiríkur Guðbergur Guðmundsson, framleiðslu- og sölustjóri fyrirtækisins við Akureyri.net.
„Þessar nýju vélar munu stuðla að betri framleiðsluvöru, þær einfalda framleiðsluna og munu einnig auka starfsánægju, því vélarnar eru að miklu leiti sjálfvirkar,“ segir Eiríkur.
Timburgluggar voru smíðaðir í Hyrnu á árum áður og Húsheild/Hyrna tók upp þráðinn snemma á þessu ári.
Trésmiðjan Börkur á Akureyri var þekkt fyrir gæðaglugga í áratugi, félagið var selt fyrir nokkrum árum og síðar sameinað öðrum, og eftir að öllum starfsmönnum var sagt upp og framleiðslan flutt suður á land voru nokkrir fyrrverandi starfsmenn Barkar ráðnir til Húsheildar/Hyrnu og gömlu vélarnar ræstar!
Nýju vélarnar koma til landsins í desember og Eiríkur segir að ekki veiti af. Mjög mikið hafi verið að gera í gluggasmíði og ljóst að eftirspurnin muni enn aukast á næstunni.
Heimild: Akureyri,net