Home Fréttir Í fréttum Kaldalón kaupir sjö fasteignir á 8,3 milljarða

Kaldalón kaupir sjö fasteignir á 8,3 milljarða

105
0
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns. Ljósmynd: Eyþór Árnason

„Af því gefnu að báðum viðskiptum ljúki stækkar fasteignasafn Kaldalóns um 16% fyrir árslok.“

<>

Fasteignafélagið Kaldalón hefur skrifað undir samninga um kaup á öllu hlutafé í annars vegar IDEA ehf. og hins vegar K190 hf. en umrædd félög eiga samanlagt sjö fasteignir að stærð um 17.600 fermetrar.

Heildarvirði umræddra félaga í viðskiptunum 8.335 milljónir króna og er áætlað að afhending fyrir árslok 2024, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Samhliða viðskiptum liggja fyrir langtímaleigusamningar við núverandi leigutaka eignanna.

Fasteignir IDEA eru Vesturvör 36, Víkurgata 11B, Völuteigur 31, Klafastaðavegur 12, Gránufélagsgata 47 og Leirukrókur 2-3. Viðskiptin eru háð hefðbundnum fyrirvörum í fasteignaviðskiptum, svo sem um ástandsskoðun og áreiðanleikakönnun. Fasteignirnar hýsa rekstur iðn- og tæknifyrirtækisins HD.

Seljandi IDEA er Hamar ehf., móðurfélags HD og Véla og Dælu, sem er í 66% eigu framtakssjóðsins SÍA III.

Eina fasteign K190 er Klettagarðar 19, sem eru höfuðstöðvar 1912, móðurfélags Nathan & Olsen. Áreiðanleikakönnun og ástandsskoðun er lokið en viðskiptin eru meðal annars háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

K190 er í eigu Sökkla eignarhaldsfélags. Sökklar er í jafnri eigu Ara Fenger annars vegar og hjónanna Bjargar Fenger og Jóns Sigurðssonar hins vegar.

„Um 90% virði fasteignanna er á höfuðborgarsvæðinu. Aðrar fasteignir eru vel staðsettar við eða á hafnarsvæðum. Fasteignirnar munu áfram hýsa starfsemi rótgróinna fyrirtækja á iðn- og tækniþjónustumarkaði og matvælamarkaði,“ segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.

„Af því gefnu að báðum viðskiptum ljúki stækkar fasteignasafn Kaldalóns um 16% fyrir árslok og rekstrartekjur félagsins aukast um 682 m.kr. á ársgrundvelli.“

Heimild: Vb.is