Home Fréttir Í fréttum Eigendur eldri timburhúsa hvattir til að huga að brunavörnum

Eigendur eldri timburhúsa hvattir til að huga að brunavörnum

34
0
Litlar sem engar brunavarnir voru í húsinu við Bræðraborgarstíg 1. RÚV – Andri Yrkill Valsson

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sent eigendum eldri timburhúsa um allt land spurningalista sem að hjálpa á til við að auka brunavarnir.

<>

Um 14 þúsund íbúðarhús falla undir skilgreiningar HMS á eldri timburhúsum á landsvísu.

Eigendum eldri timburhúsa hefur borist spurningalisti í gegnum island.is sem þeir eru hvattir til að fara í gegnum til að bæta brunavarnir í húsum sínum.

Átaksverkefnið er tillaga samráðsvettvangs sem stofnaður var eftir að þrír létust í bruna á Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní 2020. Húsið sem brann var timburhús byggt árið 1910. Það var ekki hannað með tilliti til bruna og voru brunavarnir litlar sem engar þegar kviknaði í.

Húsið við Bræðraborgarstíg 1 var byggt árið 1910.
RÚV – Grímur Jón Sigurðsson

Ráðist var í að greina þarfir til úrbóta eftir brunann.

„HMS var semsagt falið eftirfylgni með tillögunni af ráðherra, þannig að núna erum við að fara af stað með þessa spurningakönnun og jafnframt stórt fræðsluátak um hvernig efla megi brunavarnir eldri timburhúsa og þar með draga úr brunahættu í slíkum húsum,“ segir Regína Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri sviðs brunavarna og markaðseftirlits hjá HMS.

Regína Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri sviðs brunavarna og markaðseftirlits hjá HMS.
Aðsend

Í könnuninni eru eigendur beðnir um að svara 12 spurningum og leggja þannig mat á ýmsa þætti brunavarna, þar á meðal hvort reykskynjarar séu til staðar, slökkvitæki, flóttaleiðir, brunahólfun sem og aðra þætti hússins sem geti haft áhrif á brunavarnir.

Horft er aðallega til húsa sem byggð voru fyrir 1999 og segir Regína að um 14 þúsund íbúðir falli undir skilgreiningar HMS um eldri timburhús.

„Við erum þá meðal annars að horfa á hús sem eru byggð fyrir gildistöku byggingarreglugerðarinnar, þar sem nútímakröfur um brunavarnir koma fram. Þýðið er um 14 þúsund íbúðir sem eru undir,“ segir hún.

Samhliða spurningakönnuninni hefur verið hrundið af stað fræðsluátaki um hvernig efla megi brunavarnir eldri timburhúsa og draga úr verulegri brunahættu. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar hér.

Heimild: Ruv.is