Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar á Laugardalsvelli

Framkvæmdir hafnar á Laugardalsvelli

58
0
Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á Laugardalsvelli

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ tóku fyrstu skóflustungurnar á Laugardalsvelli í gær. Þar með er fyrsti áfangi í uppbyggingu leikvangsins hafinn. Grasi Laugardalsvallar verður skipt út fyrir blendigras (svokallað hybrid-gras) og hitunarkerfi verður sett undir völlinn.

<>

Markmiðið er að gera Laugardalsvöll leikfæran mun stærri hluta ársins en nú er. Áfanganum verður lokið fyrir landsleiki í knattspyrnu næsta sumar. Laugardalsvöllur verður byggður upp sem knattspyrnuvöllur eingöngu og mun nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum rísa á nýjum stað í Laugardal.

Forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Reykjavíkurborg, Knattspyrnusamband Íslands og Frjálsíþróttasamband Íslands undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis í byrjun september.

Ríki og borg leggja hvort um sig allt að 250 milljónum króna í framkvæmd fyrsta áfanga og annast Knattspyrnusamband Íslands verkið.

Framkvæmdin markar fyrsta skref í uppbyggingu Laugardalsvallar sem framtíðarþjóðarleikvangs í knattspyrnu. Með uppbyggingunni vilja stjórnvöld styðja við sívaxandi afrek og árangur sem kallar á bætta aðstöðu, aðstöðu sem uppfyllir kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda til alþjóðlegrar keppni.

Mennta- og barnamálaráðuneytið
Reykjavíkurborg
Knattspyrnusamband Íslands

Heimild:Stjornarrad.is