Home Fréttir Í fréttum Þorlákshöfn: Nýr miðbær stuðlar að blómstrandi mannlífi, þjónustu og menningu

Þorlákshöfn: Nýr miðbær stuðlar að blómstrandi mannlífi, þjónustu og menningu

102
0
Horft í átt að Selvogsbraut. Mynd/Arkís Arkitektar

Í fyrradag var haldinn íbúafundur í Þorlákshöfn þar sem kynnt voru drög að hönnun nýs miðbæjar í Þorlákshöfn. Fundurinn var afar vel sóttur og ljóst að mikil eftirvænting er eftir nýjum miðbæ.

<>

Elliði Vignisson, bæjarstjóri, segir að sterkur miðbær sé hjartað í litlum bæjum með stóra sál.

„Hann þjónar sem samkomustaður fyrir íbúa og gesti og stuðlar að blómstrandi mannlífi, verslun, veitingaþjónustu og menningu.

Fyrir verslun er miðbærinn mikilvægur þar sem hann býður upp á vettvang fyrir fjölbreytta þjónustu- og verslunarframboð, sem getur laðað að bæði heimamenn og ferðamenn.

Menningarlega séð hefur vel heppnaður miðbær burði til að verða vettvangur fyrir viðburði, listir og menningu. Þetta eykur menningarvitund íbúa og stuðlar að fjölbreytni í bæjarlífinu,“ segir Elliði.

Skautasvellið verður einstakt á landsvísu. Mynd/Arkís Arkitektar

Skautasvell og menningarsalur
Við hönnun miðbæjarins hefur verið lögð áhersla á að minna á sérstöðu Þorlákshafnar á Suðurlandi sem vaxandi sjávarbyggðar sem bíður upp á mikla þjónustu við íbúa og gesti.

Þannig er gert ráð fyrir þeim möguleika að hægt verði að vera með skautasvell á veturnar á miðbæjartorginu og tónleika á sumrin. Víða eru bekkir, gróður, manir og fl. sem skapa hlýlegt og notalegt yfirbragð.

Samhliða byggingu miðbæjarins horfir sveitarfélagið til þess að byggja menningarsal sem hýst getur hvers konar menningarviðburði.

„Menningarsalnum er ætlað að gegna kjölfestu hlutverki í að efla samfélagsvitund og félagsleg tengsl. Með því að vera sameiginlegur staður fyrir skapandi starfsemi eykur hann möguleika íbúa á að koma saman, skiptast á hugmyndum og njóta fjölbreyttrar listalífs.

Hann er því ekki einungis vettvangur fyrir afþreyingu, heldur einnig fyrir menningarlega þróun, aukna tengingu milli íbúa og aukin gæði í lífi bæjarbúa,“ segir Elliði.

Á kynningarfundinum í fyrradag kom fram að framkvæmdir við fyrsta húsið á svæðinu munu hefjast á næstu vikum.

Heimild: Sunnlenska.is