Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá pípara sem er ósáttur við hvað endurskoðandinn hans lætur hann borga mikla skatta. Hvað er til ráða?
Hæ
Ég er pípari og það gengur ógeðslega vel. Hins vegar er endurskoðandinn minn að láta mig greiða ógeðslega mikið í skatta, bæði tekjuskatt og virðisaukaskatt. Mér finnst hann alveg í ruglinu. Það fer bókstaflega allt í skatt. Hvernig get ég lækkað skattana?
Kveðja,
KP
Jæja.
Fyrst verð ég að benda þér á þá staðreynd að skattar eru einfaldlega ákveðið hlutfall af hagnaði þínum. Eftir því sem betur gengur færðu meiri hagnað og þar af leiðandi greiðir þú hærri skatta. Það fer aldrei „allt í skatt“ – en tekjuskattar liggja í kringum 40% (ekki 100%)
Sama á við um virðisaukaskatt. Þú ert í sjálfu sér ekki að greiða krónu í virðisaukaskatt. Kerfið okkar virkar þannig að þú innheimtir gjald fyrir þína þjónustu, bætir virðisaukaskatti ofan á og skilar honum. Þannig að þú í sjálfu sér ert ekki að borga virðisaukaskattinn heldur kúnninn.
Hins vegar er ekkert mál að lækka tekjuskatt. Það getur þú t.d. gert með því að lækka útselt verð verulega, eða gefið viðskiptavinum þinum verulega afslætti og jafnvel beðið birgja þína um að fella niður afslætti alfarið á þig.
Þannig getur þú núllstillt afkomuna þína, haft engan hagnað, enginn skattur og allir kátir. Ef þú nærð ekki að núllstilla þig svona getur þú líka beðið þennan ágæta endurskoðanda þinn sem er ekkert að gera annað en að vinna vinnuna sína að hækka taxtann á þig verulega þannig að þú jafnvel lendir í tapi með þennan rekstur hjá þér.
Kveðja,
Eymundur
Heimild: Mbl.is/Smartland