Home Fréttir Í fréttum Smiðja er tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2024

Smiðja er tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2024

37
0
Mynd: Honnunarmidstod.is

Smiðja, skrifstofubygging Alþingis eftir Studio Granda er tilnefnd sem staður ársins á Hönnunarverðlaununum 2024. Verðlaunin fara fram 7. nóvember.

<>

Rökstuðningur dómnefndar:
Smiðja sameinar á einum stað fundaaðstöðu og skrifstofur þingmanna og starfsfólks Alþingis í fimm hæða byggingu á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis í Reykjavík. Hönnun var í höndum arkitektastofunnar Studio Granda, í kjölfar samkeppni sem haldin var árið 2016.

Form byggingarinnar og gluggasetning eru við fyrstu sýn látlaus en steinklæðningin dregur að sér athygli og vísar í jarðsögu landsins og menningarminjar sem finna má í Kvosinni.

Borðaklædd sjónsteypa og steinn, sýnileg utan- sem innanhúss, eru meðal höfundareinkenna Studio Granda. Þegar inn er komið eru þessi einkenni enn meira áberandi, sér í lagi á fyrstu hæð þar sem nefndastörf þingsins fara fram og gestagangur er sem mestur.

Grjótið gegnir aðalhlutverki í útliti hússins að utan og víða á veggjum og í gólfi innanhúss. Allt grjót sem notað er í byggingunni hafði orðið aflögu við aðrar framkvæmdir og þess vegna þurfti ekki að sækja það sérstaklega í námu.

Mynd: Honnunarmidstod.is

Listaverk eftir Kristin E. Hrafnsson er fellt inn í húsið við aðalinnganginn og verk eftir Þór Vigfússon er í lofti í forsal.

Yfirbragð er mildara á efri hæðum í vinnurýmum þingmanna og starfsfólks Alþingis þar sem aukin áhersla er á eik og fleiri litir eru notaðir. Að því marki sem hægt er í svo þétt setinni byggingu, er unnið með sveigjanleika, hvort sem er með því að sameinina sali eftir þörfum eða með hreyfanlegum léttari veggeiningum milli skrifstofa.

Mynd: Honnunarmidstod.is

Arkitektarnir leggja áherslu á íslenskan efnivið og handverk og mikil alúð hefur verið lögð við hvort tveggja hönnun og smíði. Húsgögnin eru hönnuð af arkitektum hússins fyrir utan endurnýjuð íslensk húsgögn úr safni Alþingis og stóla eftir Erlu Sólveigu Óskarsdóttur, framleidda hjá Á. Guðmundssyni.

Smiðja er borgarhús í hæsta gæðaflokki sem ber íslensku hugviti og handverki glæsilegt vitni.

Um:
Studio Granda var stofnað af Margréti Harðardóttur og Steve Christer í Reykjavík árið 1987 í kjölfar samkeppni um Ráðhús Reykjavíkur. Verkefni stofunnar hafa verið margvísleg, allt frá skipulagi og samgöngumannvirkjum til iðnhönnunar og innsetninga í samstarfi við listamenn. Flest verkefnin eru þó í flokki opinberra bygginga, s.s ráðhús, dómhús, listasafn, skólar, en íbúðarhúsnæði af öllum stærðum er einnig hluti af verkefnaskrá. Verkkaupar hafa ýmist verið opinberir eða einkaaðilar og flest eru verkin á Íslandi. Þessi fjölbreytta reynsla hefur ýtt undir þá afstöðu að hvert verk sé einstakt.

Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024.

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.

Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.

Heimild: Honnunarmidstod.is