Home Fréttir Í fréttum Dýrafjarðargöng komin í alþjóðlegt útboðsferli

Dýrafjarðargöng komin í alþjóðlegt útboðsferli

107
0
Gangamunninn Arnarfjarðarmegin verður skammt frá Mjólkárvirkjun. Mynd: GRAFÍK/VEGAGERÐIN.

Dýrafjarðargöng eru komin í útboðsferli með auglýsingu um forval, sem birt var í fyrradag. Vegamálastjóri segir stefnt að því að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

<>

Fyrir hálfum mánuði lýstu ýmsir áhyggjum yfir því að Dýrafjarðargöng kynnu að frjósa inni í komandi alþingiskosningum. Vegagerðin er hins vegar lögð af stað. Auglýst hefur verið eftir verktökum sem vilja láta meta sig hæfa til að grafa þessi 5,3 kílómetra jarðgöng, sem ætlað er að leysa af veginn um Hrafnseyrarheiði. Þetta þýðir að formlegt ferli alþjóðlegs útboðs er hafið en forvalið er auglýst á evrópska efnahagssvæðinu.

„Miðað við að öllu óbreyttu verður þetta boðið út í haust og þýðir þá að framkvæmdir hefjast á næsta ári, eins og lagt hefur verið upp með undanfarin misseri. Við erum bara að fylgja því ferli og reiknum með að allt gangi eftir,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í viðtali í fréttum Stöðvar 2.


 Hin 550 metra háa Hrafnseyrarheiði er helsti farartálminn á milli íbúa á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum og jafnan ófær í fjóra til fimm mánuði á ári. Vestfirðingar hafa hvað eftir annað bent á að göngin séu helsta forsenda þess að nýjar atvinnugreinar eins og heilsársferðaþjónusta og fiskeldi geti þróast eðlilega í fjórðungnum. En þýðir þetta skref núna að menn geti verið rólegri gagnvart göngunum?

Ég myndi nú halda það. Þessi ferill er settur af stað núna með heimild okkar ráðherra, innanríkisráðherra, og samkvæmt því sem ég hef heyrt frá henni er hún staðráðin í því að halda þessu verkefni til streitu. Þannig að ég held að menn eigi ekki að þurfa að óttast, – nema einhverjar kollsteypur verði í samfélaginu, sem ég sé nú ekkert sérstaklega benda á í dag. Þannig að við treystum því bara að þetta gangi eftir,“ segir vegamálastjóri.

Með Dýrafjarðargöngum fæst sá bónus að Vestfjarðavegur styttist um 27 kílómetra. Gangamunnar yrðu skammt innan við Dýrafjarðarbrú og Arnarfjarðarmegin rétt utan við Mjólkárvirkjun. Vegamálastjóri áætlar að verkið kosti 9,2 milljarða króna. En hvenær verða göngin tilbúin?
 
  „Þetta er samkvæmt okkar áætlunum þriggja ára verkefni. Framkvæmdir hefjast nú ekki fyrr en eftir mitt næsta ár, 2017, miðað við þær fjárveitingar sem eru inni í áætlunum, sem þýðir að þetta er tilbúið á miðju ári 2020,“ svarar Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

Heimild: Vísir.is