Opnað hefur verið að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Samkvæmt upplýsingum frá Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur aðstoðarforstjóra HMS var opnað fyrir umsóknir upp úr hádegi í gær en lokað hafði verið fyrir umsóknir frá því í maí sl. Síðdegis höfðu borist 40 umsóknir.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra breytti í gær reglugerð um hlutdeildarlánin og hækkaði tekjuviðmiðin vegna lánanna.
Engin hlutdeildarlán hafa verið afgreidd frá því í byrjun sumars en Alþingi samþykkti í júní að hækka lánsfjárheimild til hlutdeildarlána úr 3 í 4 milljarða kr. en HMS hefur svo þar til nú beðið eftir að fá fjárheimildina afgreidda.
„Hægt að afgreiða þetta strax“
Það sem af er árinu hefur 2,7 milljörðum kr. verið úthlutað til alls 219 íbúða og skv. HMS er umsóknartímabilið sem nú hefur verið opnað fyrir frá 4. október til og með 21. október.
„Til úthlutunar fyrir umsóknartímabilið að þessu sinni eru 800 milljónir króna og dugi fjármagnið ekki sem nú er til úthlutunar verður dregið af handahófi úr umsóknum þeirra umsækjenda sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána í samræmi við forgangsreglur,“ segir í frétt á vef HMS.
„Þau eru afgreidd. Það hefur verið um nokkurt skeið ekki nægjanlega vel gengið frá bókhaldslegum og tæknilegum útfærslum og kerfið hefur verið svolítið lengi að finna út úr því.
En þetta liggur fyrir og allar fjárheimildir eru komnar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og viðeigandi lánaskjöl eru þar til umfjöllunar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra í samtali í gær. Hann segir að fyrirkomulagið sé komið í þann farveg sem það verði í til framtíðar. „Þannig að það er gott,“ segir hann.
Nú hefur fjöldi fólks beðið lengi eftir niðurstöðu þessara mála. Hvenær getur það vænst þess að fá úrlausn sinna mála?
„Eftir því sem ég best veit er fjármagnið komið til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og lánaskjölin klár, þannig að ég veit ekki annað en að það sé hægt að afgreiða þetta strax,“ segir Sigurður Ingi.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.
Heimild: Mbl.is