Home Fréttir Í fréttum Slökkvilið Fjallabyggðar vanbúið til að takast á við atvik í jarðgöngum

Slökkvilið Fjallabyggðar vanbúið til að takast á við atvik í jarðgöngum

24
0
Slökkvilið Fjallabyggðar á brunaæfingu í Strákagöngum. aðsent – Slökkvilið Fjallabyggðar

Slökkvilið Fjallabyggðar komst aðeins 200 metra inn í Strákagöng við æfingar þar í fyrra. Slökkviliðsstjóri segir brýnt að endurnýja allan búnað strax. Þrenn göng eru í umdæminu, þau lengstu 11 kílómetra löng.

<>

Æfing Slökkviliðs Fjallabyggðar í Strákagöngum í fyrra leiddi í ljós að slökkviliðið er algerlega vanbúið til að takast á við atburði í jarðgöngum, segir slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar. Brýnt sé að endurnýja búnað í takt við núverandi brunavarnir svo hægt sé að tryggja öruggt slökkvistarf í göngunum.

Málið hefur verið til umræðu um nokkurt skeið en ágreinings gætt um hver eigi að borga brúsann. Í júni úrskurðaði innviðaráðuneytið að Vegagerðinni bæri að bera þann kostnað og var málið kynnt fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í gær.

Komust ekki lengra en 200 metra inn í göngin við æfingar
Þrenn göng eru í umdæminu, beggja vegna við Ólafsfjörð og Siglufjörð. Þar á meðal eru Héðinsfjarðargöng, lengstu göng landsins sem eru um 11 kílómetra löng.

Að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar slökkviliðsstjóra í Fjallabyggð sýndi það sig á æfingu í Strákagöngum í fyrra að slökkviliðið hefur enga burði til þess að takast á við atvik sem upp koma í göngunum.

Aðeins hafi tekist að komast um 200 metra inn í göngin, sem eru um 800 metrar að lengd og langt frá því að vera lengstu göngin á svæðinu. Áhættumat sýnir að slökkvilið Fjallabyggðar ræður við áhættustig 4 en göngin eru metin á hættustigi 5.

Vegagerðinni beri að endurnýja búnað í samræmi við reglugerð
Jóhann segir því afar brýnt að búnaður verði endurnýjaður í takt við núverandi reglugerð.

Nýrri göng eins og í Vaðlaheiði taki mið af slíku, úr þessu þurfi að bæta strax. Þá segir hann nýleg dæmi sýna vel hversu mikil hætta geti skapast og nefnir þar bílbruna í Hvalfjarðargöngum í fyrra og alelda rútu sem var nýlega komin út úr Vestfjarðargöngum þegar í henni kviknaði.

aðsent / Slökkvilið Fjallabyggðar

Samkvæmt úrskurði innviðaráðuneytis ber eiganda ganganna, sem í þessu tilviki er Vegagerðin, að bera kostnað af kaupum viðeigandi tækjabúnaðar. Þá bendir Jóhann jafnframt á að bæta þurfi í fjármagn Vegagerðarinnar eigi þeir að standast þann kostnað.

Heimild: Ruv.is