Home Fréttir Í fréttum Allt í háaloft eftir íbúðarkaup í miðbænum

Allt í háaloft eftir íbúðarkaup í miðbænum

62
0
Lóðin við Njarðargötu 61 í Reykjavík en þar stendur til að byggja þriggja hæða hús með átta íbúðum. Í bakgrunni má sjá glitta í Skólavörðustíg 44a en kaupendur íbúðar í því húsi segjast ekki hafa verið upplýstir um byggingaráformin. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Kaupendur íbúðar í miðbæ Reykjavíkur eru ósáttir eftir að hafa ekki verið upplýstir um að til stæði að byggja nýtt þriggja hæða hús á lóð þar sem nú er hús sem tilheyrir sömu húsaröð og húsið þar sem íbúðin er.

<>

Seljandi íbúðarinnar segist aldrei hafa verið upplýstur um breytingu á deiliskipulagi þar sem þessi bygging var heimiluð og kærði málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í úrskurði nefndarinnar vegna málsins segir að kæran hafi borist 13. september síðastliðinn. Afsalshafi íbúðar í tvíbýlishúsi á lóð númer 44A við Skólavörðustíg kærði ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí á þessu ári um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar númer 61 við Njarðargötu.

En húsin á viðkomandi lóðum eru samtengd í sömu húsalengju en á milli þeirra er hús númer 46 við Skólavörðustíg.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst í Stjórnar­tíðindum 6. júní síðastliðinn. Í henni fólst breyting á byggingarreit Njarðargötu 61 svo mögulegt væri að byggja þrjár hæðir og ris á lóðinni með allt að átta íbúðum, byggingarmagn aukist og nýtingar­hlutfall hækki.

Segir í úrskurðinum að tillagan hafi verið grenndarkynnt fyrir seljandanum með bréfi dagsettu 12. apríl síðastliðinn sem sent hafi verið á lögheimili hans. í bréfinu hafi verið veittur frestur til að koma athugasemdum á framfæri fram til 22. maí.

Hafi dvalið erlendis

Seljandinn  sagði í kæru sinni að hann sé með skráð tímabundið aðsetur erlendis en haldi þó lögheimili á Íslandi samkvæmt reglugerð um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafi verið „kynnt“ fyrir honum með einu bréfi sem ekki liggi fyrir að hafi borist á lögheimili hans.

Önnur tilkynning hafi ekki borist, hvorki rafrænt né með öðrum leiðum. Seljandinn segir að hann hafi nú selt íbúð sína og séu kaupendurnir ósáttir við að hafa ekki verið upplýstir um þær framkvæmdir sem standi til.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála neitaði hins vegar að taka kæruna fyrir á þeim grundvelli að hún hafi borist of seint.

Sagði nefndin að frestur til að kæra sé 4 vikur eftir að hin kæranlega ákvörðun er kynnt opinberlega. Það hafi verið gert með auglýsingunni í Stjórnartíðindum 6. júní og kærufresturinn hafi því runnið út 6. júlí en seljandinn lagði fram kæruna 13. september.

Kærunni var því vísað frá nefndinni.

Hvaða áhrif það hefur á söluna á íbúðinni liggur ekki fyrir.

Heimild: Dv.is