Home Fréttir Í fréttum Byggja á nýjan lífs­gæða­kjarna á Borgar­höfða

Byggja á nýjan lífs­gæða­kjarna á Borgar­höfða

65
0
Ingvi Jónasson framkvæmdastjóri Klasa, Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima og Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundar. Ljósmynd: Aðsend mynd

Grundarheimili munu að undangengnum samningaviðræðum við opinbera aðila reka 100 hjúkrunarrými og allt að 160 íbúðir fyrir 60+ á Borgarhöfða.

<>

Fasteignafélagið Heimar hafa undirritað viljayfirlýsingu við Grundarheimilin og fasteignaþróunarfélagið Klasa um uppbyggingu á nýjum lífsgæðakjarna á þróunarreit á Borgarhöfða í Reykjavík.

Í tilkynningu Heima til Kauphallarinnar kemur fram að áætlað sé að margvísleg heilsutengd þjónusta verði í kjarnanum, þar á meðal 100 rýma hjúkrunarheimili í rekstri Grundarheimilanna, þjónustumiðstöð og 160 íbúðir fyrir 60+.

Stefnt er að því að fyrstu íbúar lífsgæðakjarnans geti flutt inn árið 2027 eða 2028. Fyrirvari er þó gerður um að samningar náist við hið opinbera um rekstur hjúkrunarheimilisins og að lokið verði við samningsgerðina í kjölfar viljayfirlýsingarinnar.

„Þá er stefnt að opnun líkamsræktarstöðvar sem þjónað geti öllum íbúum Borgarhöfðans og einnig kemur til greina að koma fyrir annarri heilsutengdri þjónustu í kjarnanum auk þess sem skoðað verður hvort heilsugæslustöð gæti orðið hluti af verkefninu.“

Heimar, sem áður hétu Reginn, hafa unnið að verkefninu í nánu samstarfi við Klasa sem er að þriðjungi í eigu Heima. Meðal eigna Klasa eru lóðir á Borgarhöfða en gert er ráð fyrir lífsgæðakjarnanum í hluta þess verkefnis.

Yfirlitsmynd sem sýnir uppbyggingu sem hafin er á Borgarhöfða.

Gert ráð fyrir 15 þúsund íbúum á Borgarhöfða

Borgarhöfði er nýr borgarhluti í Reykjavík. Deiliskipulag á því svæði sem Klasi hefur þróað á Borgahöfða síðustu ár liggur fyrir og framkvæmdir eru nú þegar hafnar. Gert er ráð fyrir því að eftir rúm 2 ár þá gætu tæplega 600 íbúðir verið komnar í notkun eða á síðustu stigum framkvæmda.

Gert er ráð fyrir að íbúar þessa nýja borgarhluta í Reykjavík geti verið í kringum 15 þúsund talsins.

Gert er ráð fyrir að öll helsta nærþjónusta verði í göngufæri s.s. matvöruverslun, minni smávöruverslanir, menningarhús, útivistarsvæði og önnur fjölbreytt atvinnustarfsemi. Við Krossamýrartorg verður ein af stoppistöðvum Borgarlínu, en ljúka á við hana í fyrstu lotu Borgarlínuverkefnisins.

Ein stærsta framkvæmd í sögu Grundarheimila

Áformin fela í sér að Grundarheimilin munu að undangengnum samningaviðræðum við opinbera aðila reka 100 hjúkrunarrými og allt að 160 íbúðir fyrir 60+ í hverfinu.

Þetta verður ein stærsta framkvæmd í sögu Grundarheimilanna en sjálfseignarstofnunin Grund rekur fyrir hjúkrunarheimili á Grund við Hringbraut og hjúkrunarheimili og íbúðir fyrir 60+ í Mörkinni í Reykjavík og í Hveragerði.

Grund hefur undanfarin ár staðið að viðamiklum endurbótum á húsnæði og lóð Grundar við Hringbraut en Borgarhöfðinn verður þriðja hjúkrunarheimili Grundar í borginni.

„Borgarhöfðinn þykir kjörinn fyrir starfsemi sem þessa vegna miðlægrar staðsetningar á höfuðborgarsvæðinu og annarrar uppbyggingar sem er í vændum í þessum nýja borgarhluta sem gerir ráð fyrir öllum aldurshópum. Stutt er í fjölbreytta útivistarmöguleika, öll helsta þjónusta verður aðgengileg í göngufjarlægð og mikið verður lagt upp úr greiðum samgöngum við önnur hverfi.“

Heimild: Vb.is