Home Fréttir Í fréttum Fyrirtæki á Höfða undirbúa flutninga og víkja fyrir nýrri íbúabyggð

Fyrirtæki á Höfða undirbúa flutninga og víkja fyrir nýrri íbúabyggð

87
0
RÚV – Arnór Fannar Rúnarsson

Á Höfða eru eigendur rótgróinna fyrirtækja farnir að leiða hugann að yfirvofandi flutningum. Stór hluti iðnaðarhverfisins á að víkja fyrir nýrri íbúabyggð.

<>

Uppbygging á Ártúnshöfða og í Elliðaárvogi verður til þess að mörg rótgróin fyrirtæki þurfa að færa sig um set. Fyrirtækjaeigendur segja kostnaðinn við tilfærsluna hlaupa á hundruðum milljóna, jafnvel milljörðum.

Byggja á allt að átta þúsund íbúðir fyrir tuttugu þúsund íbúa á höfðanum og eru framkvæmdir þegar hafnar. Ljóst er að breytingar verða miklar næstu 20 árin og fyrirtæki þurfa mörg frá að hverfa. Deiliskipulag hefur verið í mótun undanfarin ár.

Sjá eftir góðri staðsetningu
Blikksmiðurinn hefur verið til húsa á Malarhöfða 8 frá árinu 1993. Valdimar Þorsteinsson, verkefnastjóri, segir staðsetninguna góða. „Við vonum að við fáum að vera hér sem lengst en klárlega verður þetta farið innan 20 ára,“ segir Valdimar.

Óvíst sé hvert þeirra starfsemi flytji. „Eins og staðan er í dag er borgin ekki að bjóða upp á marga valkosti. Ætli það sé ekki bara Hafnarfjörður,“ segir hann.

Hefur áhrif á steypuverð og kolefnisspor
Samkvæmt núverandi áætlun á Steypustöðin að vera flutt fyrir árslok 2030. Stefnt er á að flytja starfsemina á Esjumela. „Þetta mun hafa áhrif á starfsemina og steypuverð til framtíðar.

Þetta eru lengri vegalengdir sem þarf að flytja bæði hráefni sem og steypuna á verkstað þannig þetta hefur áhrif á flutningskostnað,“ segir Elísabet Ólöf Allwood, framkvæmdastjóri fjármála hjá Steypustöðinni.

Þá eigi flutningurinn líka eftir að hafa neikvæð áhrif á kolefnisfótsporið. Það segir Elísabet vera gegn stefnu fyrirtækisins. „Við höfum viljað vera og viljum áfram vera leiðandi í orkuskiptunum og erum með sex rafmagnssteypubíla og fleiri á leiðinni þannig að vonandi verðum við bara komin það langt í orkuskiptunum að þetta þurfi ekki að hafa eins mikil áhrif.“

Starfsemi á Höfða og í Hafnarfirði
Malbikunarstöðin Höfði er í eigu borgarinnar og er þegar búið að flytja hluta starfseminnar til Hafnarfjarðar. Reiknað er með að þar verði fyrirtækið til framtíðar. „Þetta hafði fyrst og fremst áhrif þegar við vorum að færa malbikunarstöðina, þá lá framleiðsla niðri á meðan. En hún er búin að vera í tvö sumur á nýjum stað og hefur svo sem engin bein áhrif á okkur núna nema það að við erum að vinna á tveimur stöðum,“ segir Birkir Hrafn Jóakimsson, framkvæmdastjóri Malbikunarstöðvarinnar.

Dýrt að flytja
Ljóst er að flutningum fylgir kostnaður. Valdimar hjá Blikksmiðnum segist enn ekki farinn að taka saman kostnaðinn. Endanlegt kostnaðarmat liggur ekki fyrir hjá Steypustöðinni „en þetta hleypur alveg á einhverjum milljörðum,“ segir Elísabet. Hjá Malbikunarstöðinni nemur kostnaður einhverjum hundruðum milljóna.

Heimild: Ruv.is