Home Fréttir Í fréttum Heildartjón á mann­virkjum á­ætlað allt að 16 til 17 milljarðar

Heildartjón á mann­virkjum á­ætlað allt að 16 til 17 milljarðar

37
0
Margar byggingar í Grindavík hafa farið illa í náttúruhamförunum síðustu misseri. Vísir/Vilhelm

Heildartjón á mannvirkjum í Grindavík gæti numið allt að 16 til 17 milljörðum króna. Tjón á heimilum í bænum hefur verið metið á 6,5 milljarða króna en enn á eftir að ná utan um tjón á öðrum innviðum, til að mynda atvinnuhúsnæði, hafnarmannvirkjum og veitum.

<>

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu og vitnað í erindi Jóns Örvars Bjarnasonar, sviðsstjóra vátryggingasviðs Náttúruhamfaratryggingar, á málþingi um jarðskjálftahættu á Íslandi.

Jón Örvar Bjarnason

Verkfræðingafélag Íslands efndi til málþingsins.

Í blaðinu kemur fram að heildarvirði vátryggðra eigna í Grindavík hafi verið metið á um 150 milljarða króna í nóvember síðastliðnum.

„Við erum að fá mikið af altjónshúsum þar sem burðarvirkið brotnar og skemmist þar sem þau standa nálægt sprungunum. Það er ekki hristingur sem brýtur þau, heldur er það skekkja og aflögun á landinu sem veldur því að þau brotna og skemmast,“ segir Jón Örvar.

Hann sagði tjónið í Grindavík öðruvísi en í Suðurlandsskjálftunum til að mynda, þar sem lítið tjón hafi orðið á mörgum eignum en í Grindavík hafi miklar skemmdir orðið á þeim eignum sem lágu næst sprungum.

Náttúruhamfaratryggingar eru endurtryggðar fyrir tjóni yfir 10 milljarða og upp í 45 milljarða fyrir tjón í einum atburði. Sjóðurinn stóð í 57 milljörðum þegar hamfarirnar í Grindavík hófust.

Heimild: Visir.is