Landsvirkjun mun hefja framkvæmdir fyrir vindorkuverið Búrfellslund þrátt fyrir að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafi kært virkjunarleyfið sem Orkustofnun veitti fyrir virkjuninni.
Framkvæmdir hefjast í lok mánaðar.
Þetta segir Þóra Arnórsdóttir, samskiptastjóri Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti í gær að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar innan framkvæmdasvæðis annars vegar og leyfi til uppsetningar vinnubúða hins vegar.
„Þetta eru náttúrulega gleðifregnir. Vegaframkvæmdir og undirbúningur fyrir vinnubúðir hefst væntanlega bara í lok september,“ segir Þóra í samtali við mbl.is.
Kæran sjálfstætt mál
Skeiða- og Gnúpverjahreppur lagði svo í gær inn kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem farið er fram á að virkjunarleyfi sem Orkustofnun gaf út 12. ágúst verði fellt úr gildi. Sveitarfélagið hafði áður gefið það út að virkjunarleyfið yrði kært.
Ætlið þið að bíða eftir því að það komi niðurstaða í það mál áður en þið hefjið framkvæmdir?
„Nei. Það er í sjálfu sér bara sjálfstætt mál og hefur sinn gang hjá úrskurðarnefndinni,“ segir Þóra.
Vindmyllur valdar í næsta mánuði
Í tilkynningu frá Landsvirkjun í gær kom fram að skipulags- og umferðarnefnd, ásamt umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd Rangárþings ytra, yrði falið að vinna áfram að afgreiðslu framkvæmdaleyfisumsóknarinnar í heild sinni.
Þá kom fram að útboðsferli meðal vindmylluframleiðenda væri nú á lokametrunum og að gert væri ráð fyrir því að í október yrði ljóst hvaða vindmylluframleiðandi yrði fyrir valinu.
Heimild: Mbl.is