Home Fréttir Í fréttum Úthlutuðu meirihluta íbúða að Miðvangi 8 á Egilsstöðum

Úthlutuðu meirihluta íbúða að Miðvangi 8 á Egilsstöðum

123
0
Teikning af fjölbýlishúsinu eins og það kemur til með að líta út. Áætlanir gera ráð fyrir að húsið verði fullbyggt um mitt ár 2026. Teikning Sigurgarður

Úthlutun á íbúðum í fjölbýlishúsi því sem félagið Sigurgarður reisir nú að Miðvangi 8 á Egilsstöðum fór fram í lok síðustu viku og gekk að óskum. Þrettán íbúðum var úthlutað og þær ellefu sem eftir eru fara á næstunni í hefðbundna sölu á markaði.

<>

Aðspurður um árangurinn af þessari úthlutun segist Sigurjón Bjarnason, einn forsprakka Sigurgarðs, mjög ánægður með hvernig til tókst og allt verið nokkuð í takti við væntingar fyrirfram.

„Þetta gekk bara mjög vel. Það fóru þarna einar þrettán íbúðir og í ljósi stöðunnar erum við bara mjög ánægð með það. Það var dregið um tilteknar íbúðir í nokkrum tilfellum þar sem fleiri en einn aðili hafði áhuga en allir voru sáttir í kjölfarið. Þar var sérstaklega um að ræða íbúðirnar á þriðju hæðinni og þeirri efstu og ég held að allar endaíbúðirnar séu uppseldar og reyndar eru allar dýrustu eignirnar í húsinu farnar.“

Ellefu íbúðir standa þá eftir að úthlutun lokinni og segir Sigurjón að áfram verði haldið að byggja og lausar íbúðir fari í opna sölu gegnum fasteignasala. Fólk geti þó enn líka skráð sig í félagið Sigurgarð, sem stofnað var sérstaklega af hópi áhugasömum um að byggja fleiri íbúðir fyrir eldra fólk á Egilsstöðum, og orðið sér úti um íbúðir sem eftir séu þannig.

Enn er ólokið að ljúka heildarsamningum um framkvæmdina en vonir aðstandenda standa til að það markmið náist vel fyrir áramótin.

Heimild: Austurfrett.is