Home Fréttir Í fréttum Deiliskipulag sniðgengið við byggingu steypustöðvar á Húsavík

Deiliskipulag sniðgengið við byggingu steypustöðvar á Húsavík

116
0
Á athafnasvæði Steinsteypis á Haukamýri. Mynd: JS

Í Ríkisútvarpinu var greint frá því að sveitarstjórn Norðurþings hefði veitt leyfi til að byggja steypustöð á Húsavík þótt hvorki lægi fyrir byggingaleyfi né deiliskipulag. Fréttin á ruv.is er svohljóðandi:

<>

„Ný steypustöð við Húsavík, sem meðal annars átti að sjá verktökum á Bakka og Þeistareykjum fyrir steypu, var inni í deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið á Bakka. Þegar í ljós kom að fyrirtækið, sem ætlaði að byggja þar, hætti við ákvað Steinsteypir ehf. að byggja steypustöð. Fyrirtækið vildi hins vegar fá lóð sunnan við Húsavík, en Bakki er norðan við bæinn, og færði fyrir því ýmis rök sem sveitarstjórn tók gild.

Sveitarstjórn brást við og fann tveggja hektara lóð á skipulögðu iðnaðarsvæði sem ekki hafði verið deiliskipulagt. Auk þess fékk Steinsteypir að hefja þar framkvæmdir án þess að fyrir lægi byggingarleyfi. Gaukur Hjartarson, skipulagsfulltrúi Norðurþings, segir að margt hafi verið í húfi þarna og útlit fyrir að Steinsteypir missti af stórum samningum fengju þeir ekki lóð í skyndi. „Þetta snéri að því að þetta fyrirtæki gæti í rauninni útvegað þá steypu sem kallað var eftir, bæði vegna uppbyggingar á Þeistareykjum og Bakka.“

Aðspurður hvort Norðurþing óttist ekki að verið sé að setja einhverskonar fordæmi með þessum hætti, segir Gaukur svo vera. „Jú, vissulega, en í þessu tilfelli fannst sveitarstjórn tilefni til að bregðast skjótt við til að leysa úr vanda sem kannsi var þá í augsýn.“

Fyrirtækið Steinsteypir er að stórum hluta í eigu fyrrverandi forseta sveitarstjórnar Norðurþings, sem gegndi því embætti þegar þessi afgreiðsla fór fram í sveitarstjórn. Gaukur telur að það hafi ekki skipt máli. „Frá mér séð hefur það ekki vægi í þessu, satt að segja. Við vorum í viðræðum við utanaðkomandi aðila sem ætluðu að byggja steypustöð, en hættu við. Og þá voru þessir aðilar næstir í þeirri röð,“ segi hann.

Gaukur segir að þegar lóðinni hafi verið útlutað til Steinsteypis, hafi verið samið við fyrirtækið um gatnagerðargjöld. Það feli í sér að sveitarfélagið muni ekki kosta til gatnagerðar á hefðbundinn hátt á þessum tímapunkti. Á móti komi að hluti gatnagerðargjalda vegna lóðarinnar frestist. Fyrirtækið hafi greitt helming gatnagerðargjalda samkvæmt gjaldskrá. Og hann segir að málið allt sé að verða komið á réttan stað í kerfinu.

„Við erum að afgreiða og samþykkja teikningar. Þær hafa því miður borist heldur leiðinlega hægt og við höfum umtalsvert mikið gengið á eftir þeim, en við höfum samt ekki viljað skella rekstrinum í lás,“ segir Gaukur.“

Friðrik Sigurðsson, stjórnarformaður Steinsteypis og fyrrum bæjarfulltrúi í Norðurþingi, tjáði sig um málið á facebook í morgun og sagði:

„Las fréttir og fékk að vita það að úthlutun sveitarstjórnar á iðnaðarlóð á iðnaðarsvæði væri spilling! Í þokkabót hefðu allir fulltrúar í sveitarstjórn (nema ég sem vék af fundi) verið að gera mér persónulegan greiða með þessu.

Þeir sem þekkja mig vita að ég hef alltaf gætt mín á því að halda stjórnmálum og mínum rekstri aðskildum. Ég kom ekki nærri samskiptum við fulltrúa sveitarfélagsins í aðdraganda lóðaúthlutunar, það bað ég félaga mína um, einmitt til þess að ekki væri hægt að væna okkur um spillingu! Það hefur samt verið ýjað að slíku og það særir mig að heyra slíkt.

Ég hef fengið margt á mig og miður skemmtilegt þau ár sem ég hef setið í sveitarstjórn, en að ég sé tengdur spillingu hef ég aldrei fengið að heyra áður og að það sé sett fram eftir að ég er hættur í sveitarstjórn er ótrúlegt. Sorglegt og dapurlegt og þvert á allt sem ég tel mig hafa staðið fyrir í stjórnmálum.

Uppbygging á umræddri lóð hefur verið unnin af Trésmiðjunni Rein og mér vitandi í góðu samstarfi við byggingarfulltrúa.

Hjá Steinsteypi starfa í dag tæplega 20 manns, þeir voru 2 – 3 fyrir uppbyggingu.“

Ennfremur sagði Friðrik Sigurðsson.

„Það eru fordæmi fyrir sambærilegri afgreiðslu s.s. vallarhús við íþróttavöllinn var ekki sérstaklega deiliskipulagt. Hvað varðar byggingarleyfið þá hefur það dregist að þeir sem sjá um teikningar fyrir Trésmiðjuna Rein hafi skilað af sér teikningum. Ég er stjórnarformaður Steinsteypis og taldi að þessi mál væru bara í góðu lagi en fyrir c.a. 4 vikum kom tölvupóstur frá byggingarfulltrúaembættinu að ekki væri búið að skila inn teikningum og þá þrýsti ég á það og þeim var skilað inn eftir því sem ég veit fyrir síðasta fund byggingarnefndar.

Enn og aftur eru mörg dæmi um það að byggingar séu komnar af stað án þess að teikningar liggi fyrir, en að sjálfsögðu ber að skila þeim inn tímanlega og fyrir því er engin afsökun af minni hálfu.“

Bæjarfulltrúi VG í Norðurþingi, Óli Halldórsson, staðfesti þessi orð Friðriks og taldi að hér væru einhver meinhorn að slá vindhögg. JS

Heimild: Dagskráin.is