Home Fréttir Í fréttum Breytingar á byggingareglugerð: Gott fyrir þá sem þurfa minna en 55 fermetra

Breytingar á byggingareglugerð: Gott fyrir þá sem þurfa minna en 55 fermetra

145
0

Byggingarkostnaður minnstu íbúða lækkar verulega vegna reglugerðarbreytingar. Gagnrýnt er að breytingin nái ekki með sama hætti til meðalstórra íbúða sem henta barnafjölskyldum.

<>

Breyting sem gerð var á byggingarreglugerð fyrir fjórum árum hafði það markmið að fatlaðir hefðu gott aðgengi að öllum íbúðum. Þá var gagnrýnt að breytingin þýddi umtalsverða hækkun byggingarkostnaðar, þar sem gerðar voru kröfur um stærri rými.

En nú er umhverfisráðherra búinn að breyta reglugerðinni, sveigjanleiki er aukinn og leyft að byggja allt niður í 20 fermetra íbúðir. Þá er til dæmis dregið úr kröfum um lágmarksbreidd á göngum og stigum.

„Við fögnum þessum breytingum á reglugerðinni. Þetta er jákvætt skref og sennilega stærsta skrefið í átt að lækkun byggingarkostnaðar frá því upphafleg reglugerð var sett fyrir fjórum árum síðan,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

„Þannig að í stórum dráttum erum við mjög jákvæð á breytingarnar. Þetta getur lækkað byggingarkostnað allverulega.“

Hann kveðst sannfærður um að kostnaðarlækkun muni skila sér til húsnæðiskaupenda en treystir sér ekki til að nefna hversu mikil hún gæti orðið.

„En það eru þarna tilslakanir, eða aukinn sveigjanleiki í hönnun og þess háttar, sem getur þýtt það að þetta hlaupi á einhverjum prósentum. En ég treysti mér ekki til að orða það nánar en það.“

Breytingin er mest gagnvart smæstu íbúðunum sem eru 55 fermetrar eða minni. En það er ekki endilega sú stærð sem fjölskyldur með kannski 2-3 börn eru að leita að. Samtök iðnaðarins gagnrýna að ekki skuli gengið lengra til móts við þann hóp. Þannig segir Almar mikla þörf á byggingu meðalstórra íbúða sem henti barnafjölskyldum.

„Barnafólk er líklega að kalla mest eftir íbúðum sem eru af stærðargráðunni 60 til 90 fermetrar. Það væri hægt að ganga lengra hvað slíkar íbúðir varðar, – þó vissulega skipti þetta máli varðandi smærri íbúðir. Við verðum að taka það fram,“ segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Heimild: Vísir.is