Home Fréttir Í fréttum Vongóð um að heilsugæsla rísi nærri Sjúkrahúsinu á Akureyri

Vongóð um að heilsugæsla rísi nærri Sjúkrahúsinu á Akureyri

39
0
Nú horfa stjórnvöld til þess hvort sé fýsilegt að reisa heilsugæslustöð á reitunum við Sjúkrahúsið á Akureyri. Hin heilsugæslustöðin er norðanmegin í bænum. RÚV – Sölvi Andrason

Lengi hefur staðið til að byggja nýja heilsugæslustöð á Akureyri. Útboð var reynt á síðasta ári án árangurs, en nú segir forstjóri HSN viðræður um bygginguna ganga vel.

<>

Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segist vænta þess að bygging nýrrar heilsugæslustöðvar á Akureyri fari í útboð á næstu mánuðum. Nú er horft til þess að reisa stöðina nærri sjúkrahúsi bæjarins.

„Ef öll leyfi fást að menn gætu verið að bjóða út slíka byggingu einhverntíman í kring um áramótin. Við allavega erum vongóð um það“, segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN.

Það hefur gengið á ýmsu í húsnæðismálum Heilsugæslunnar á Akureyri undanfarin misseri. Fyrir fimm árum gaf ráðuneyti það út að tvær heilsugæslustöðvar þyrftu að vera starfandi í bænum, og var þá horft meðal annars til íbúafjölda og dreifingar byggðar.

Fyrr á árinu flutti heilsugæslan úr nær ónýtu húsi í miðbænum í nýja stöð í verslunarkjarnanum Sunnuhlíð. Stjórnendur þar sögðu alveg ljóst að þó það væri mikil bót, myndi ein stöð ekki duga til.

Heilsugæslan færðist fyrr á árinu inn í verslunarkjarnann Sunnuhlíð. Aldrei hefur verið byggt hús í bænum sérstaklega ætlað undir heilsugæslustöð.
RÚV – Ólöf Rún Erlendsdóttir

Nærri SAk frekar en á tjaldsvæðisreitnum
Forstjórinn segir viðræður um nýja stöð ganga vel og að nú sé stefnt að því reisa stöðina nærri Sjúkrahúsinu á Akureyri en ekki á svokölluðum tjaldsvæðisreit við Þórunnarstræti, eins og áður stóð til.

Einnig fékk heilsugæslan leyfi til þess að stækka frekar við sig innan verslunarkjarnans Sunnuhlíðar og fékk þar nýverið 250 fermetra til viðbótar, sem verða teknir í notkun á næstu mánuðum.

„Það var auðvitað svolítið þröngt um starfsemina þegar við fórum með alla starfsemina í eina heilsugæslustöð þar sem áttu að vera tvær. Þannig það hentaði mjög vel að fá þarna meira rými á sama stað“, segir Jón.

Heimild: Ruv.is