Home Fréttir Í fréttum Endurbætur við Laxárstöð III í sumar

Endurbætur við Laxárstöð III í sumar

215
0
Laxá III

Landsvirkjun áformar að fara í endurbætur og viðhald í Laxárstöð III, sem miða að bættu rekstraröryggi, minna sliti og lengri endingu á búnaði stöðvarinnar. Um er að ræða tvö umfangsmikil verkefni, annars vegar endurbætur á inntaks- og stíflumannvirkjum og hins vegar á vélasamstæðu stöðvarinnar ásamt tengdum búnaði, þar sem m.a. verður skipt um hverfilshjól í vélinni. Áætlað er að framkvæmdir standi yfir frá maí fram til loka október.

<>

Framkvæmdir við stíflumannvirki

Vatnsyfirborði inntakslónsins verður haldið í óbreyttri hæð og hefur framkvæmdin ekki áhrif rennsli árinnar og raskar hvergi ósnortnu landi eða verndarsvæði hennar. Hæð núverandi stíflu Laxár III og hönnun hennar stenst illa þær kröfur sem nú eru gerðar, en upphaflega var stíflan byggð fyrir Laxá I. Vatn vætlar yfir stífluna í flóðum og þegar stöðin er úr rekstri. Til að auka öryggi stíflunnar verður stíflukróna hennar hækkuð til að tryggja að ekki flæðir yfir hana í flóðum.

Stíflan mun uppfylla gildandi öryggiskröfur við hönnun stíflumannvirkja að framkvæmd lokinni.

Nýtt fyrirkomulag inntaks

Nýtt fyrirkomulag inntaks er sýnt með rauðskyggðum fleti á skýringarmynd hér fyrir ofan, en inntaksmannvirkið verður fært utar í inntakslónið eins og þar er sýnt. Jafnframt tekur hönnun þess mið af bættri ísfleytingu, og að stærstum hluta þess íss sem berst að inntaki, fljótandi á yfirborðinu, verði fleytt framhjá stöðinni um nýtt ísfleytingaryfirfall (sjá gula línu á skýringarmynd), og þaðan út í náttúrulegan farveg árinnar um rennu (bláskyggt svæði á skýringarmynd).

Nýja yfirfallinu er ætlað að koma í veg fyrir upphleðslu íss í inntakslóni sem leiðir oft af sér rekstrarvandamál fyrir stöðina. Með breytingunni verður nýtt inntak stöðvarinnar beint undir ísfleytingaryfirfallinu og rekstrarvatnshæð í inntakslóni stöðugri sem er ætlað að tryggja að vatn vætli alltaf yfir yfirfallið á vetrum, til að koma í veg fyrir upphleðslu íss. Með þessu fyrirkomulagi verður inntak stöðvarinnar í kafi og mun rekís því ekki eiga greiða leið inn um aðrennslisgöng og niður í hverfil, heldur er honum fleytt framhjá stöð um nýtt ísfleytingaryfirfall.

Dýpkun inntakslóns, aukið sandfang, minnkun sandburðar um stöð

Megnið af sandburði í Laxá berst í ána með Kráká rétt neðan Mývatns. Gert er ráð fyrir að móta og dýpka inntakslónið til að auka rýmd þess fyrir aukið sandfang og til að ná niður straumhraða til að auka set á réttum stöðum innan inntakslónsins. Markmiðið er að lækka rennslishraða, svo að sandur setjist til og án þess að ís stöðvist í lóninu.

Sandskolunarbúnaði verður komið fyrir í tveimur setgryfjum sem gerðar verða í og við inntak stöðvarinnar. Þaðan er gert ráð fyrir að sandinum verði skolað út reglulegar og oftar innan ársins en verið hefur. Áhrifasvæði sandskolunar er bundið við farveginn á milli Laxárstöðva II og III þar sem sandurinn mun aftur setjast til í lóni Laxárstöðvar II eins og við núverandi aðstæður. Breytingar út fyrir rekstrarsvæði stöðvanna eru því litlar.

Endurnýjun á hverfli og tengdum búnaði

Á fyrri hluta síðasta árs var skrifað undir samning um hönnun og smíði á nýju hverfilshjóli fyrir Laxá III. Hönnun hjólsins miðast við núverandi fallhæð og núverandi rennsli um stöðina, en gamla hjólið var hannað fyrir mun meiri fallhæð og passaði því ekki við núverandi aðstæður.

Hjólið sem nú er í rekstri hefur verið það frá árinu 1993, eða í um 23 ár. Vegna mikils sandburðar um stöðina hefur hjólið slitnað hratt síðustu ár og hefur verið reynt að sjóða í það til að laga slit. Nú er svo komið að hjólinu verður ekki viðhaldið lengur og skipt verður um hjólið í sumar.

Ýmis annar búnaður tengdur vélasamstæðu stöðvarinnar verður einnig endurnýjaður eða uppgerður. Þrýstivatnspípa, snigill og sográs auk inntaksrista verða sandblásin og máluð og framkvæmd verður ítarleg skoðun og ástandsmat á rafala stöðvarinnar.

Hreinsun á aðrennslisgöngum og grjótgildrum

Árið 1993 voru aðkomugöngin hreinsuð og grjótgildrur sem þar er að finna voru tæmdar. Í dag eru þessar grjótgildrur fullar, þar sem sandur og grjót hafa átt greiða leið inn úr inntakslóni. Með þeim aðgerðum sem lýst hefur verið er búist við að langur tími líði þar til tæma þurfi gildrurnar að nýju.

Með þessum framkvæmdum við inntaksmannvirki Laxár III ásamt endurnýjun á hverfli stöðvarinnar er tekið varfærið en öruggt skref í átt bættum rekstri.

Heimlid: Landsvirkjun