Flugárið 2025 hefur vægast sagt verið strembið fyrir Air Greenland, stærsta flugfélag Grænlands og jafnframt það eina sem býður upp á millilandaflug.
Flugferðum til Grænlands hefur ítrekað verið frestað eða aflýst og jafnvel eru dæmi um flugvélar sem snúa þurfti við þegar komið var á áfangastað.
Ný flugbraut var opnuð á flugvellinum í Nuuk í fyrra með það að markmiði að geta lent stærri þotum með fleiri farþegum. Einhverjir sérfræðingar höfðu varað við því að skilyrði á svæðinu byðu einfaldlega ekki upp á lendingar hjá svo stórum þotum.
Brautin var opnuð þrátt fyrir aðvaranir þessara sérfræðinga og nú gætu Grænlendingar þurft að gjalda fyrir það.
Inga Dora Markussen, samskiptastjóri Air Greenland, segir þó að flugbrautin sé nógu góð til lendinga en að veðrið í ár hafi verið ólíkt því sem áður hefur sést og þess vegna gangi svo brösuglega að lenda vélum í Nuuk.
„Það er eitthvað í veðrinu sem gerir það að verkum að stormar sem koma úr suðri eru mun algengari í ár en þeir hafa verið,” segir Inga í samtali við mbl.is.
Eru með einn stöðugasta flugvöll heims
Flugfélagið hefur tekið upp á því að nota gamlan herflugvöll í Kangerlussuaq sem varaflugvöll þegar lending í Nuuk er ómöguleg. Inga segir aðstæður í Kangerlussuaq vera mun betri en í Nuuk og segir hann vera einn stöðugasta flugvöll í heimi. Þrátt fyrir það eru flestir farþegar sem koma til Grænlands á leið til Nuuk svo skynsamlegra er að hafa flugvöllinn þar að sögn Ingu.
„Þetta er svolítið eins og að hafa alþjóðarflugvöll Íslendinga á Akureyri, en svo vilja allir fara til Reykjavíkur,” segir hún.

Inga segir veðrið hafa leikið flugfélagið grátt og að kostnaðurinn sé búinn að vera gríðarlegur. Oft hefur félagið þurft að greiða fyrir gistingu, mat og annað tilfallandi fyrir farþega sem hafa þurft að lenda annars staðar sökum veðurs.
Segja stækkunina vanhugsaða
Grænlenskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið og spurningar hafa vaknað meðal íbúa um það hvort staðsetning vallarins hafi verið vanhugsuð. Arkitektar og flugmenn vöruðu sumir hverjir við verkefninu fyrir fram og bentu á að aðrar mögulegar staðsetningar hefðu boðið upp á betri veðurfarsleg skilyrði.
Rætt hefur verið hvort fjárfesting sem nam tugum milljarða íslenskra króna hafi verið of áhættusöm, miðað við aðgengi og reglufestu í flugumferð. Að því er fram kemur í grænlenskum fjölmiðlum hljóðaði kostnaður við framkvæmdina upp á rúmlega 37 milljarða íslenskra króna.

Inga undirstrikar að hún telji framkvæmdina ekki hafa verið vanhugsaða og kennir breyttum og óþekktum veðurskilyrðum um.
Heimild:Mbl.is