Home Fréttir Í fréttum Sky Lagoon afhjúpar 2 milljarða króna viðbyggingu

Sky Lagoon afhjúpar 2 milljarða króna viðbyggingu

114
0
Helga María Albertsdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon. Ljósmynd: Aðsend mynd

Sky Lagoon mun á næstu dögum afhjúpa stækkaða viðbyggingu við lónið ásamt nýjum nöfnum við upplifun gesta.

<>

Baðlónið Sky Lagoon mun á næstu dögum afhjúpa stækkaða viðbyggingu við lónið sem hýsir gufuböðin og er hluti af hinu svokallaða sjö skrefa ritúal. Skrefin sjö munu nú bera heitið Skjól en í tilkynningu segir að nýja nafnið sé tilvísun í íslenska baðmenningu.

Breytingarnar fela meðal annars í sér stækkun á gufubaði (e. sauna) hússins en nú verða í boði tvenns konar svæði. Annað verður með enn stærri útsýnisglugga og hitt verður sérstakt svæði þar sem farsímar verða bannaðir.

Hingað til hefur sjö skrefa ferlið aðeins verið í boði fyrir þá gesti sem bóka hina svokölluðu Sky- eða Pure-pakka en ódýrari aðgangsmiði hefur þá líka verið í boði fyrir þá sem vilja aðeins vera í lóninu.

Á nýja sturtusvæðinu má meðal annars finna gríðarstóran stein sem situr undir berum himni.
© Samsett (SAMSETT)

Með breytingunum mun ódýrasti pakkinn heyra sögunni til og munu nöfnin Pure og Sky breytast í Saman og Sér, eftir því hvort gestir fari saman í sturtu eða verði í sér klefa.

„Eftir að hafa hlustað vandlega á endurgjöf gesta síðustu ára vildum við finna leiðir til að dýpka upplifunina enn frekar. Útkoman er Skjól þar sem gestir okkar geta átt upplifun sem er engri annarri lík og heimsótt stærri ævintýraheim en áður þar sem fyrri tímar mæta þeim nýju,” segir Helga María Albertsdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon.

Sky Lagoon segir að kostnaður við framkvæmdirnar hafi verið um tveir milljarðar króna en rekstur lónsins hefur gengið vel undanfarin ár. Hagnaður Sky Lagoon var til að mynda 945 milljónir árið 2023 miðað við 410 milljónir árið þar á undan.

Félagið er meirihluta í eigu kanadíska fyrirtækisins Pursuit Collection, sem rekur meðal annars FlyOver Iceland. Fyrirtækið er dótturfélag samsteypunnar Viad Corp sem sérhæfir sig í lúxusferðalögum til Bandaríkjanna, Kanada, Bretlands, Evrópu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Sky Lagoon segist vilja leggja aukna áherslu á íslenskunotkun og vill fyrirtækið stíga skref til að leggja sitt af mörkunum. „Bæði eykur það jákvæða upplifun Íslendinga en gefur erlendum gestum einnig skemmtilega innsýn inn í tungumálið okkar enda hefur markmið okkar frá opnun verið að upphefja íslenska baðmenningu, sögu og arfleið,” segir Helga María.

Heimild: Vb.is