Home Fréttir Í fréttum Unnið í kappi við tímann á lykilstað á varnargörðunum

Unnið í kappi við tímann á lykilstað á varnargörðunum

34
0
Vinnutæki á ferð við varnargarð. Orkuverið í Svartsengi sést í baksýn. – Guðmundur Bergkvist

Varnargarðurinn við Hagafell er orðinn um og yfir tólf metrar á hæð. Unnið er dag og nótt við að hækka hann enda mikið í húfi, þar sem þaðan er bein leið niður í Svartsengi. Enn er reiknað með eldgosi á hverri stundu.

<>

Það er betra að vera ekki fyrir þegar búkollurnar þeysast um varnargarðasvæðið við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga. Unnið er allan sólarhringinn við að hækka varnargarðinn milli Hagafells og Sýlingarfells, en honum er ætlað að verja orkuverið í Svartsengi.

„Hann er kominn í fyrstu hæðina ef svo má segja núna, við teljum að þessi hæð ráði vel við þunna hraunið og fyrsta apalhrauns-áhlaupið. En síðan eins og við höfum séð þetta gerast þá þegar þau eru komin þá belgjast hraunin upp og hafa verið að þenja sig um marga margra metra,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.
Guðmundur Bergkvist

Eins og gerðist í júní, þá lyfti hraunið sér upp fyrir varnargarð ofan við Svartsengi og flæddi yfir.

„Það er fyrst og fremst svoleiðis viðbragð sem við erum að horfa í núna að vera í þeirri stöðu að geta lyft garðinum samhliða því sem hraunið hækkar,“ segir Jón Haukur.

Varnargarðurinn er um og yfir tólf metra hár og stendur til að hækka hann. Landslagið í kringum Sýlingarfell og Hagafell er eðlilega mjög breytt og hraun fyllir upp í lægðirnar í landinu.

Vegna nálægðarinnar við gíginn gæti verið lítill tími til að taka ákvarðanir – renni hraunið í átt að varnargarðinum.

„Hérna verður þá skemmri aðdragandi og þess vegna er þessi punktur viðkvæmur og að sama skapi er hér mest undir. Því hér eiginlega bara bein leið niður í Svartsengi. Þannig þessi punktur er gríðarlega mikilvægur. Þannig hér þurfum við að horfa til að hafa meiri rýmd en á öðrum stöðum.“

Heimild: Ruv.is