Home Fréttir Í fréttum Gamla kirkjan á Djúpavogi nánast tilbúin að utan

Gamla kirkjan á Djúpavogi nánast tilbúin að utan

37
0
Mynd: Austurfrett.is

Ytra byrði Gömlu kirkjunnar á Djúpavogi er nánast tilbúið en finna þarf henni framtíðarhlutverk áður en ráðist verður í að klára hana að innan. Unnið hefur verið að endurbótum á henni frá árinu 2010.

<>

„Það er nánast búið að endurbyggja hana að utan og það sem eftir er þar er í vinnslu. Síðan þarf að finna henni hlutverk áður en haldið verður áfram inni í henni. Það þarf að hanna það í samræmi við nýtinguna,“ segir Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings.

Síðast í apríl auglýsti heimastjórn Djúpavogs eftir hugmyndum eða samstarfsaðilum um nýtingu kirkjubyggingarinnar til framtíðar. Þær auglýsingar hafa ekki skilað árangri.

Í Húsakönnun Djúpavogshrepps kemur fram að kirkjan hafi verið byggð árið 1893 í stað kirkjunnar að Hálsi sem fauk í óveðri árið áður. Árið 1996 var byggð ný kirkja á Djúpavogi og sú gamla afhelguð.

Byrjað var á endurbótum hennar árið 2010 en ástand hennar var þá orðið hörlegt. Hún þykir hafa töluvert varðveislugildi vegna aldurs og er meðal elstu bygginga á Djúpavogi.

Endurbæturnar hafa meðal annars miðað að því að gera við upphaflega timburklæðningu kirkjunnar og færa hana þannig nær upprunalegu útliti.

Á þessum tíma hefur kirkjan verið nýtt undir fundi og sýningar auk þess sem ýmsar hugmyndir hafa komið fram um framtíð hennar þótt þær hafi ekki enn raungerst.

Heimild: Austurfrett.is