Home Fréttir Í fréttum Fólk með gólfhitakerfi ætti að sýna sér­staka að­gát

Fólk með gólfhitakerfi ætti að sýna sér­staka að­gát

66
0
Nýtt hitaveiturör sem á að tengja inn á flutningskerfið í Víðidal. Heitavatnslaust verður á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins vegna framkvæmdanna fram á miðvikudag. Vísir/Vilhelm

Stærsta heitavatnslokun í sögu Veitna skellur á í kvöld. Heitavatnslaust verður hjá næstum þriðjungi þjóðarinnar fram á miðvikudag. Pípulagningameistari ráðleggur íbúum að skrúfa fyrir krana og loka fyrir inntak heits vatns. Þá þurfi fólk með gólfhitakerfi að huga sérstaklega að sínum kerfum.

<>

Lokað verður fyrir heitavatnið í Hafnarfirði, Garðabæ, Álftanesi, Kópavogi, Breiðholti, Hólmsheiði, Almannadal og Norðlingaholti klukkan 22 í kvöld, 19. ágúst, og opnað aftur fyrir það í hádeginu á miðvikudag, 21. ágúst. Lokunin er fyrsti liður í tengingu á nýrri flutningsæð hitaveitu.

„Þessi svæði eru stækkandi og eftir því sem við byggjum meira af húsum þá þurfum við meira af heitu vatni og nú erum við komin á þann stað að til þess að geta flutt vatn af þessum svæðum, frá virkjununum okkar, þá þurfum við að bæta við annarri lögn samhliða hinni,“ sagði Hrefna Hallgrímsdóttir forstöðumaður vatnsmiðla hjá Veitum í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Loka fyrir inntak og skrúfa fyrir krana

Heitavatnsleysið er gríðarumfangsmikið. Það mun hafa áhrif á um 120 þúsund manns og viðbúið er að röskun verði á einhverri starfsemi, sundlaugum á svæðinu verður til að mynda lokað. En hvað ber að hafa í huga, nú þegar heitavatnsleysið er við það að skella á?

Guðmundur Páll Ólafsson pípulagningameistari var einnig gestur í Bítinu. Hann ráðlagði öllum að loka fyrir heitavatnsinntakið og skrúfa fyrir krana.

„Svo þegar búið er að hleypa á kerfið aftur í heild sinni, opnið þá fyrir þann krana aftur í rólegheitum, og verið viss um að allir heitavatnskranar séu lokaðir í eldhúsvöskum og baðvöskum og fleira,“ sagði Guðmundur.

Þá sé gott að hafa glugga lokaða til að halda varma inni. Guðmundur beindi því einnig sérstaklega til fólks með gólfhitakerfi að huga að sínum kerfum.

„Þá myndi ég biðja fólk að taka dælurnar úr sambandi. Ef kerfin liggja þannig að það verði þrýstifall á kerfinu, þá getur komist loft inn á dælurnar og dælurnar eru mismunandi úr garði gerðar. Sumar þola það illa, aðrar drepa á sér,“ sagði Guðmundur.

Frekari leiðbeiningar eru aðgengilegar á vef Veitna, veitur.is, og þá hefur Félag pípulagningameistara tekið saman leiðbeiningar sem birtar hafa verið á vef félagsins, piparinn.is.

Heimild: Visir.is