Home Fréttir Í fréttum Óuppgerð innviðaskuld

Óuppgerð innviðaskuld

74
0
Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Sumu fólki virðist það mikið í nöp við að aðrir en ríkið, t.d. lífeyrissjóðir og einkafyrirtæki, komi að og fjárfesti í innviðaframkvæmdum að það vill heldur sjá nauðsynlega innviði grotna niður.

<>

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, var í áhugaverðu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í síðustu viku. Viðtalið var hluti af umfjöllun blaðsins um að vægi erlendra eigna í eignasafni nokkurra lífeyrissjóða nálgist lögbundið hámark.

Ólafur benti á að tækifæri væri til að létta á gjaldeyrisþrýstingi vegna þessa með skráningu innviða á markað.

„Það er gríðarlega mikil innviðaþörf á Íslandi og ég spyr af hverju við ættum að fjármagna þá þörf með erlendum skuldum þegar lífeyrissjóðirnir eru með pening sem þarfnast vinnu.

Þetta eru langtímafjárfestingar sem henta lífeyrissjóðum ágætlega sem eru að vaxa mikið,“ sagði Ólafur og benti á að samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins frá árinu 2021 nemi uppsöfnuð viðhaldsskuld á innviðum landsins 420 milljörðum króna. Ætla má að sú skuld sé orðinn enn hærri í dag.

Ólafur benti jafnframt á að samkvæmt lögum eigi veitustarfsemi að vera í meirihlutaeigu sveitarfélaga en uppsöfnuð viðhaldsskuld á fráveitum sé gríðarhá og víða sé ástandið ekki í lagi. Sveitarfélögin ráði einfaldlega ekki við þetta og fráveiturnar uppfylli varla Evrópureglugerðir um hreinlæti.

Hann sagði að ef nýir innviðir séu teknir með inn í myndina nálgist innviðaskuldin á Íslandi þúsund milljarða króna fram í tímann. Jafnvel þó að lífeyrissjóðir auki hægt og rólega hlutfall erlendra eigna í eignasafni sínu, þá sé mikið fjármagn sem vanti vinnu innanlands.

„Ég hef áður sagt það opinberlega að mér finnst að stjórnvöld þurfi að endurhugsa hvort það megi ekki markaðssetja innviði, skrá þá á markað og koma skipulagi á þá með sérlögum til að vernda þá, enda eru þeir mikilvægir innviðir. Þá væri hægt að finna öllu þessu innstreymi fjármagns inn í lífeyrissjóðina farveg, og það myndi létta á þessum gjaldeyrisþrýstingi sem hefur myndast hjá mörgum lífeyrissjóðum vegna hámarksins.

Við hjá Birtu höfum ítrekað verið að leita að innviðum, við fórum í Mílu og erum að leita að hagrænum og félagslegum innviðum, eins og hjúkrunarheimilum. Að mínu mati er þörf á ópólitísku samtali um að í þessu felist ekki einkavæðing á innviðum. Það er mjög sérstakt að það skuli vera svona mikil innviðaskuld á meðan lífeyrissjóðirnir þurfa að setja pening í vinnu.“

Þarna hittir Ólafur naglann á höfuðið. Sumu fólki virðist það mikið í nöp við að aðrir en ríkið, t.d. lífeyrissjóðir og einkafyrirtæki, komi að og fjárfesti í innviðaframkvæmdum að það vill heldur sjá nauðsynlega innviði grotna niður.

Auk þess má benda á að lífeyrissjóðir eru óbeint í eigu fólksins í landinu, enda ber öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur að greiða í lífeyrissjóð.

Þau rök um að ekki sé æskilegt að mikilvægir innviðir sé ekki í eigu einkaaðila halda því ekki vatni. Þá er líkt og Ólafur bendir á hægt að sníða sérlög í kringum innviðina til að vernda þá og hagsmuni þjóðarinnar.

Heimildy: Vb.is