Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Styttist í að íbúðum verði úthlutað í Miðvangi 8 á Egilsstöðum

Styttist í að íbúðum verði úthlutað í Miðvangi 8 á Egilsstöðum

73
0
Mynd: Austurfrett.is

Í byrjun september stendur til að úthluta íbúðum til hluthafa í Sigurgarði í væntanlegu fjölbýlishúsi sem verið er að byggja að Miðvangi 8 á Egilsstöðum. Vonast er til að heildarsamningar um framkvæmdirnar klárist vel fyrir áramót.

<>

„Veðrið stoppaði verkið af í vetur. Það var metið sem svo að ekki borgaði sig að fara frekar ofan í jörðina í frosti. Í sumar fóru framkvæmdir aftur af stað og botnplatan verður kláruð í næstu viku,“ segir Sigurjón Bjarnason, formaður Sigurgarðs.

Fyrsta skóflustunga að húsinu var tekin í júní 2023 og hófust jarðvegsframkvæmdir þá. Íbúðirnar eru ætlaðar eldra fólki og er framkvæmdin unnin í gegnum Sigurgarð sem er félag sem fólk, sem hefur hug á að kaupa íbúðir í húsinu, skráði sig fyrir hlut að. Hlutafé hvers hluthafa er hálf milljón króna og var notað til að koma framkvæmdum af stað.

Þetta þýðir hins vegar að samið er um hvern áfanga verksins fyrir sig. Í vetur bárust fregnir af því að töluvert vantaði upp á fjármögnun til að framkvæmdaáætlun stæðist. Úr þeim málum virðist vera að leysast.

Að botnplötunni lokinni verður farið í að steypa upp bílakjallara. Vonast er til að samningar um þann verkþátt verði kláraðir á næstu dögum og kjallarinn tilbúinn fyrir áramót.

24 íbúðir til ráðstöfunar

Þann 5. september stendur svo til að boða til fundar meðal hluthafa í Sigurgarði þar sem væntanlegum íbúðum í húsinu verður úthlutað. Þær verða 24 talsins, en hluthafarnir hafa ekki enn náð þeirri tölu svo fólk getur enn skráð sig til þátttöku.

Í framhaldinu hvílir síðan á íbúðareigendum að fjármagna hver sína íbúð. „Hver sér um sinn eignarhlut, þannig reynum við að spara fjármagnskostnað því við reiknum með að fólk eigi eitthvað lausafé sem það getur notað til að brúa bilið þar til það getur selt þær eignir sem það á í dag, sem er staða flestra,“ segir Sigurjón.

Auk þess að eiga forgang að íbúðum veitir hlutur í Sigurgarði aðgengi að upplýsingu og rétt til þáttöku í hönnun hússins. Sigurjón segir að hluthafar hafi fundað um og fundið lausnir á álitamálum eins og bílakjallara, gólfhita í íbúðir og hljóðeinangrun.

Fjölbýlishús Sigurgarðs tilbúið um mitt ár 2026

Þær íbúðir sem eftir verða munu renna inn í dótturfélag Sigurgarðs sem mun fjármagna þær, byggja og síðan selja. „Það er góður gangur í viðræðum okkar við lánastofnanir og við höfum engar áhyggjur af öðru en að húsið verði uppselt áður en það verður fullbyggt.“

Sigurgarður sjálfur tekur ekki lán og er hluti vinnunnar við stjórnun félagsins unninn í sjálfboðavinnu til þess að reyna að halda niðri kostnaði.

„Verðmæti sjálfboðavinnunnar gæti numið milljónum samanborið við ef verkið væri unnið af hefðbundnum byggingaverktaka.“ Sigurjón segir að með þessu sé vonast til að byggja megi íbúðirnar undir markaðsverði sambærilegra húsa.

Í tilkynningu sem Sigurgarður sendi frá sér í vikunni segir að vonast sé til að heildarsamningar um framkvæmdina náist á næstu 2-3 mánuðum.

Sigurjón segir að í dag sé mesta vinnan lögð um að semja um þann verkþátt sem felist í að steypa upp veggi og gera bygginguna fokhelda. Síðan séu eftir innréttingar, lagnir og annað slíkt. Viðræður um þetta þokist almennt ágætlega.

Stefnt er að því að húsið verði fullbúið í síðasta lagi um mitt ár 2026. Möguleiki er að einhverjar íbúðir verði tilbúnar fyrr.

Heimild: Austurfrett.is