Home Fréttir Í fréttum Húsið á Kirkjusandi jafnað við jörðu

Húsið á Kirkjusandi jafnað við jörðu

77
0
Nágrannar kvörtuðu yfir miklu ryki sem lagðist yfir nágrennið meðan á framkvæmdum stóð. mbl.is/Árni Sæberg

Nú þegar verið er að jafna Íslands­banka­húsið á Kirkju­sandi við jörðu gefst til­efni til að rekja sögu staðar­ins og rýna í áform Reykja­vík­ur­borg­ar og Íslands­banka um framtíðar­upp­bygg­ingu á lóðinni.

<>

Um alda­mót­in 1900 voru Th. Thor­steins­son og Íslands­fé­lagið með fisk­verk­un á sand­in­um og voru þar tvær bryggj­ur. Árið 1950 byggði Tryggvi Ófeigs­son út­gerðarmaður salt­verk­un­ar­hús á Kirkju­sandi og árið 1952 byggði hann frysti­hús.

Húsið var hækkað og byggt við það í nokkr­um áföng­um og var á sín­um tíma stærsta frysti­hús lands­ins. Arki­tekt húss­ins var Sig­urður Pét­urs­son, múr­ari, húsa­meist­ari og bygg­ing­ar­full­trúi í Reykja­vík.

Mynd­in var tek­in 22. júlí. mbl.is/​Arnþór

Úr frysti­húsi í höfuðstöðvar
Í kjöl­far eld­goss­ins í Heima­ey árið 1973 keypti Ísfé­lagið í Vest­manna­eyj­um frysti­húsið og aðrar eign­ir á Kirkju­sandi af út­gerðarfé­lagi Tryggva og rak til árs­ins 1975 þegar Sam­band ís­lenskra sam­vinnu­fé­laga keypti hús­eign­irn­ar við Kirkju­sand.

Á 9. ára­tugn­um hóf Sam­bandið um­fangs­mikl­ar breyt­ing­ar á hús­inu sem var stækkað, hækkað og klætt og því breytt í skrif­stofu­hús fyr­ir höfuðstöðvar fyr­ir­tæk­is­ins.

Niðurrif annarra mann­virkja á svæðinu, eins og salt­verk­un­ar­hús­anna, var hluti af þess­um breyt­ing­um.

Höfuðstöðvarn­ar voru ekki lengi í hús­næðinu og þurfti Sam­bandið að láta hús­næðið af hendi við upp­gjör á fyr­ir­tæk­inu. Íslands­banki eignaðist síðar húsið og aðrar eign­ir á lóðinni.

Íslands­banki áður en mygla fannst í hús­inu sem varð til þess að það var rifið. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Flúðu húsið vegna myglu
Bank­inn flutti höfuðstöðvar sín­ar á Kirkju­sand árið 1995 og gerði minni hátt­ar breyt­ing­ar á út­liti og innra fyr­ir­komu­lagi húss­ins. Banka­starf­semi var í hús­inu til 2017 og störfuðu 450 manns þar þegar mest var.

Þegar mygla kom upp var ákveðið að flytja starf­sem­ina í annað hús­næði og þegar úti­bú bank­ans á Kirkju­sandi og Suður­lands­braut voru sam­einuð voru höfuðstöðvarn­ar flutt­ar í Norðurt­urn­inn við Smáralind.

Íbúðum á reitn­um hef­ur fjölgað um 367 frá því að borg­in og bank­inn gerðu með sér sam­komu­lag árið 2017. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Fjölguðu íbúðum í deili­skipu­lag­inu
Í sam­komu­lagi milli Reykja­vík­ur­borg­ar og Íslands­banka frá 2017 var gert ráð fyr­ir því að byggðar yrðu um 300 íbúðir á reitn­um.

Í fram­haldi af þessu sam­komu­lagi var deili­skipu­lagið end­ur­skoðað fyr­ir fjóra reiti á lóð A og tek­in ákvörðun um að rífa húsið þar sem það var talið með öllu ónot­hæft vegna raka­skemmda.

Gild­andi deili­skipu­lag ger­ir nú ráð fyr­ir 667 íbúðum á reitn­um og hef­ur þeim því fjölgað um 367 frá því að Reykja­vík­ur­borg og Íslands­banki gerðu með sér sam­komu­lag um upp­bygg­ingu reits­ins árið 2017.

Kort Kirkju­sand­ur og Laug­ar­nes árið 1900. Veg­ur að Laug­ar­nesi lá yfir Fúlutjarn­ar­læk. Ljós­mynd/​Danska her­for­ingj­aráðskortið/​Borg­ar­sögu­safn Reykja­vík­ur

Allt breyst nema nafnið
Gamla leiðin frá Laug­ar­nesi að Fúlu­lækj­ar­tjörn hef­ur tekið mikl­um breyt­ing­um frá því að fisk­verk­un­ar­hús voru byggð þar í kring­um alda­mót­in 1900.

Sæ­braut­in sem ligg­ur frá Skúla­götu að Laug­ar­nesi er lögð á land­fyll­ingu. Nafnið Kirkju­sand­ur breyt­ist ekki, þótt ekki sé vitað með vissu hvar um­rædd kirkja stóð og Fúla­tjörn er horf­in.

Um­fjöll­un­in birt­ist í Morg­un­blaðinu á fimmtu­dag­inn, 1. ág­úst.

Heimild: Mbl.is