
Nú þegar verið er að jafna Íslandsbankahúsið á Kirkjusandi við jörðu gefst tilefni til að rekja sögu staðarins og rýna í áform Reykjavíkurborgar og Íslandsbanka um framtíðaruppbyggingu á lóðinni.
Um aldamótin 1900 voru Th. Thorsteinsson og Íslandsfélagið með fiskverkun á sandinum og voru þar tvær bryggjur. Árið 1950 byggði Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður saltverkunarhús á Kirkjusandi og árið 1952 byggði hann frystihús.
Húsið var hækkað og byggt við það í nokkrum áföngum og var á sínum tíma stærsta frystihús landsins. Arkitekt hússins var Sigurður Pétursson, múrari, húsameistari og byggingarfulltrúi í Reykjavík.

Úr frystihúsi í höfuðstöðvar
Í kjölfar eldgossins í Heimaey árið 1973 keypti Ísfélagið í Vestmannaeyjum frystihúsið og aðrar eignir á Kirkjusandi af útgerðarfélagi Tryggva og rak til ársins 1975 þegar Samband íslenskra samvinnufélaga keypti húseignirnar við Kirkjusand.
Á 9. áratugnum hóf Sambandið umfangsmiklar breytingar á húsinu sem var stækkað, hækkað og klætt og því breytt í skrifstofuhús fyrir höfuðstöðvar fyrirtækisins.
Niðurrif annarra mannvirkja á svæðinu, eins og saltverkunarhúsanna, var hluti af þessum breytingum.
Höfuðstöðvarnar voru ekki lengi í húsnæðinu og þurfti Sambandið að láta húsnæðið af hendi við uppgjör á fyrirtækinu. Íslandsbanki eignaðist síðar húsið og aðrar eignir á lóðinni.

Flúðu húsið vegna myglu
Bankinn flutti höfuðstöðvar sínar á Kirkjusand árið 1995 og gerði minni háttar breytingar á útliti og innra fyrirkomulagi hússins. Bankastarfsemi var í húsinu til 2017 og störfuðu 450 manns þar þegar mest var.
Þegar mygla kom upp var ákveðið að flytja starfsemina í annað húsnæði og þegar útibú bankans á Kirkjusandi og Suðurlandsbraut voru sameinuð voru höfuðstöðvarnar fluttar í Norðurturninn við Smáralind.

Fjölguðu íbúðum í deiliskipulaginu
Í samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og Íslandsbanka frá 2017 var gert ráð fyrir því að byggðar yrðu um 300 íbúðir á reitnum.
Í framhaldi af þessu samkomulagi var deiliskipulagið endurskoðað fyrir fjóra reiti á lóð A og tekin ákvörðun um að rífa húsið þar sem það var talið með öllu ónothæft vegna rakaskemmda.
Gildandi deiliskipulag gerir nú ráð fyrir 667 íbúðum á reitnum og hefur þeim því fjölgað um 367 frá því að Reykjavíkurborg og Íslandsbanki gerðu með sér samkomulag um uppbyggingu reitsins árið 2017.

Allt breyst nema nafnið
Gamla leiðin frá Laugarnesi að Fúlulækjartjörn hefur tekið miklum breytingum frá því að fiskverkunarhús voru byggð þar í kringum aldamótin 1900.
Sæbrautin sem liggur frá Skúlagötu að Laugarnesi er lögð á landfyllingu. Nafnið Kirkjusandur breytist ekki, þótt ekki sé vitað með vissu hvar umrædd kirkja stóð og Fúlatjörn er horfin.
Umfjöllunin birtist í Morgunblaðinu á fimmtudaginn, 1. ágúst.
Heimild: Mbl.is