Home Fréttir Í fréttum Flytja starfsemina annað úr nýjum leikskóla sem reyndist gallaður

Flytja starfsemina annað úr nýjum leikskóla sem reyndist gallaður

81
0
Leikskólabarn með bók. Mynd úr safni. RÚV – Bragi Valgeirsson

Ekki verður hægt að opna leikskólann Brákarborg í Reykjavík á sínum stað eftir sumarfrí. Gallar uppgötvuðust sem gera þarf við. Leikskólabörnin fara í Ármúla þar sem grunnskólastarf fór fram áður vegna myglu í öðrum skólum.

<>

Foreldrar leikskólabarna í Brákarborg í Reykjavík fengu í dag bréf þar sem þeim var tilkynnt að breyta þurfi út af áætlun þegar sumarlokun skólans lýkur. Í stað þess að snúa aftur í leikskólann sinn fara börnin í Ármúla þar sem áður fór fram grunnskólastarf til bráðabirgða.

Ástæðan er galli við hönnun eða byggingu Brákarborgar sem tók til starfa fyrir tveimur árum. Starfsfólk skólans hafði tekið eftir hárfínum sprungum á nokkrum veggjum og einhverjar hurðir voru farnar að skekkjast í dyrakörmum, segir í bréfi sem Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, sendi foreldrum í dag.

Sérfræðingar voru fengnir til að taka út burðarvirki þessa tveggja ára gamla leikskóla. Úttekt leiddi í ljós að þakið uppfyllir ekki gildandi hönnunarstaðla.

Því var gripið til þess ráðs að ráðast í viðgerðir á leikskólanum. Það tekur nokkra mánuði og á þá að vera tryggt að öllum öryggiskröfum verði mætt. Á meðan verður starfsemin færð í Ármúlann og tefst opnun skólans eftir sumarfrí um tvo daga.

Borgin hefur sent öllum verktökum og ráðgjöfum sem komu að byggingu Brákarborgar formlegt bréf og tilkynnt þeim um möglega hönnunar- og eða framkvæmdagalla. Þar kemur jafnframt fram að skoðað verður hvar ábyrgðin liggur.

Heimild: Ruv.is