Home Fréttir Í fréttum Leggja veginn á nóttunni til að vera ekki fyrir umferðinni á daginn

Leggja veginn á nóttunni til að vera ekki fyrir umferðinni á daginn

157
0
Mynd: Sigurður Aðalsteinsson

Starfsmenn Héraðsverks vinna alfarið á næturvöktum í sumar við að leggja nýjan veg á leiðinni inn að Stuðlagili á Jökuldal. Áformað er að leggja slitlag á hluta kaflans í haust.

<>

Leiðin frá þjóðvegi 1 inn Jökuldal áleiðis að Stuðlagili hefur verið tekin í áföngum síðustu ár. Árið 2022 lauk Héraðsverk við að leggja nýjan veg með klæðningu frá Gilsá í Arnórsstaðahvamm.

Að þessu sinni er tekinn 4,7 km kafli úr hvamminum inn að eyðibýlinu Löngugerði. Þá er eftir um 4 km kafli inn að Hákonarstöðum.

Framkvæmdir við nýja kaflann snemma í júní. Þar sem nýi vegurinn er byggður beint ofan á núverandi leið er unnið á nóttunni enda væri erfitt að gera nokkuð yfir daginn vegna þeirrar stöðugu umferðar sem er inn að fjölsóttasta ferðamannastað Austurlands.

„Við byrjuðum á vöktum snemma í júní og verðum á þeim fram í miðjan september. Við vinnum frá klukkan átta á kvöldin til átta á morgnana, tíu daga í senn frá mánudagskvöldi fram á fimmtudagsmorgunn vikuna á eftir og tökum þá fjögurra daga frí.

Næturvaktirnar taka á mannskapinn og þetta væri ekki hægt nema fyrir úrvalsmannskap sem var til í þetta með okkur. Það er ekki sjálfgefið að menn séu tilbúnir að taka á sig næturvaktir þetta lengi.

Þetta fyrirkomulag er hins vegar gott fyrir vinnuna. Það væri erfitt að vinna þarna í þetta mikilli umferð. Það er umferð fram að miðnætti, en síðan eru ekki nema 2-3 bílar yfir nóttina,“ segir Viðar. G. Hauksson, verkstjóri Héraðsverks.

Hann segir verkinu miða vel. Stefnt er að leggja klæðningu á um helming leiðarinnar í haust. Síðan verður haldið áfram næsta sumar eins og gert var ráð fyrir áætlunum.

Heimild: Austurfrett.is