Home Fréttir Í fréttum Heidelberg krafið fleiri svara

Heidelberg krafið fleiri svara

75
0
Mynd: – RÚV/Þór Ægisson

Heidelberg er krafið fleiri svara vegna mögulegrar umhverfishættu af mölunarverksmiðju sem fyrirtækisins vill reisa í Ölfusi. Annað umhverfismat er ekki útilokað.

<>

Ekki er útilokað að annað umhverfismat verði gert vegna áforma fyrirtækisins Heidelbergs um að reisa mölunarverksmiðju í landi Ölfuss. Bæjaryfirvöld hafa samþykkt að krefja fyrirtækið um nánari svör við mögulegri umhverfishætttu.

Umhverfismati var lokið
Landeldisfyrirtækið First Water hefur andmælt því að Heidelberg reisi mölunarverksmiðju við Keflavík í Þorlákshöfn. Starfsemin fari ekki saman við matvælaframleiðslu á sömu slóðum. Reglum samkvæmt hefur þegar verið gert umhverfismat, breyting á deiliskipulagi og breyting á aðalskipulagi og athugasemdir birtar í samráðsgátt.

Á fundi Skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss fyrir helgi komu hins vegar fram athugasemdir við atriði sem First Water telur að ekki hafi verið nægjanlega útskýrð í umhverfismati.

Nánari upplýsinga verður krafist frá Heidelberg um hávaða og titring vegna starfseminnar, mögulega rykmengun og hættu á mengunarslysi vegna hafnarstarfsemi. Geir Höskuldsson er formaður skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss:

Geir Höskuldsson formaður skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss.
Mynd/aðsend

„Það er fjallað um þessa hluti í umhverfismati. First Water er að biðja um nánari útskýringar á málinu og það mun falla í hlut aðila sem vinna fyrir Heidelberg að svara þessum spurningum og svo verður það endanlega álit Skipulagsstofnunar sem stýrir því hvort að umhverfismatið sem slíkt sé opnað aftur eða hvort að þessi svör Heidelberg nægi,“ segir Geir.

Nefndin samþykkti einnig á fundi sínum að láta gera hættumat fyrir Þorlákshöfn og væntanlega höfn í Keflavík vegna athugasemda First Water. íbúakosning ræður því að lokum hvort verksmiðjan verður reist.

Heimild: Ruv.is