Home Fréttir Í fréttum Nýtt íbúðahverfi, golfvöllur og þjónustusvæði í fallegu umhverfi

Nýtt íbúðahverfi, golfvöllur og þjónustusvæði í fallegu umhverfi

80
0
Borg í Grímsnesi. Ljósmynd/Grímsnes- og Grafningshreppur

Mikil uppbygging er fyrirhuguð á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi í nánustu framtíð. Til stendur að byggja upp íbúðasvæði sem og verslunar- og þjónustusvæði, athafnasvæði og 9 holu golfvelli í örfárra mínútna fjarlægð við íbúðabyggðina.

<>

„Grímsnes- og Grafningshreppur er samheldið, kraftmikið og drífandi samfélag á besta stað við Gullna hringinn.

Hér er margt sem heillar en fátt sem truflar: kyrrð og ró, náttúruperlur við hvert fótmál, dásamleg útivistarsvæði og öll helsta þjónusta annaðhvort á staðnum til dæmis og leik- og grunnskóli nú eða í næsta nágrenni og spennandi tækifæri til uppbyggingar í nánustu framtíð,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Paradís fyrir þau sem kjósa kyrrð og ró
Í fyrsta áfanga voru lóðir á svonefndu athafnasvæði boðnar út. Í næsta áfanga verða lóðir undir verslun og þjónustu auglýstar. Þar er gert ráð fyrir blöndu af verslun, þjónustu og veitingarekstri ásamt hótellóð. Þar verður einnig hraðhleðslustöð með eldsneytissölu og smávöruverslun svo dæmi sé nefnt.

Síðar í sumar verða svo lóðir undir íbúðabyggð boðnar út. Búið er að skipuleggja nýtt hverfi á svæðinu, sem verður paradís fyrir þau sem kjósa kyrrð og ró fram yfir ys og þys en vilja samt hafa alla þjónustu í næsta nágrenni.

Sérstök áhersla er lögð á að byggðin tengist nærliggjandi þjónustukjarna á nýju miðsvæði og gott flæði verði milli innviðanna á svæðinu.

Framkvæmdir við gatnagerð við Lækjartún og Borgartún eru í fullum gangi en til stendur að úthluta lóðum undir 57 íbúðir í fyrsta áfanga sem mun svo fjölga jafnt og þétt á næstu árum og áratugum.

Heimild: Sunnlenska.is