Siglufjarðarskarðsgöng eru efst á lista í samgöngubótum hjá sveitarfélögum á Norðausturlandi. Bæjarfulltrúi í Fjallabyggð segir vonbrigði að ekki tækist að afgreiða samgönguáætlun á vorþingi, þar sem von var á fjármagni fyrir undirbúningsvinnu.
Í Samgöngu- og innviðastefnu Norðurlands eystra eru talin upp brýnustu samgönguverkefni í fjórðungnum að mati sveitarfélaganna. Af mörgum nauðsynlegum verkefnum þykja Siglufjarðarskarðsgöng brýnust; 5,2 tveggja kílómetra löng jarðgöng úr Siglufirði yfir í Fljót, sem áætlað er að kosti 19 milljarða króna.
Mikilvægt í ljósi aðstæðna að setja göngin í efsta sæti
Jarðgöngin myndu stytta leiðina úr Fjallabyggð í vesturátt um 14 kílómetra. En það er ekki aðeins styttingin sem skiptir máli, heldur er það mikið öryggisatriði að fá jarðgöng sem leystu af hólmi erfiðan veg um Almenninga.
„Við fórum mjög rækilega í þetta mál og vorum þar með vinnuhóp. Og eftir ítarlegar umræður varð það niðurstaðan, í ljósi aðstæðna hér á svæðinu og hversu mikilvægt þetta er, bæði fyrir Fjallabyggð og ekki síst fyrir landsfjórðunginn allan, að þessi framkvæmd yrði sett í efsta sæti,“ segir Guðjón M. Ólafsson, bæjarfulltrúi í Fjallabyggð og stjórnarmaður hjá SSNE.
Þarf ekki að ferðast of um veginn til að sjá að hann stenst ekki nútímakröfur
Stöðug vöktun er á Siglufjarðarvegi um Almenninga og óvissustig vegna jarðsigs er viðvarandi. Sigið er á fimm til sex kílómetra kafla og þar getur vegstæðið sigið um tugi sentimetra á ári. Og Vegagerðin er löngu hætt að reyna að halda klæðningu á verstu sigköflunum. „Hann allavega stenst ekki nútímakröfur. Það er alveg ljóst. Ég held að þú þurfir ekkert að keyra hann mjög oft til þess að sjá það.“
Dýrmætur undirbúningstími tapist við tafir á afgreiðslu samgönguáætlunar
Siglufjarðarskarðsgöng eru númer tvö í jarðgangaáætlun stjórnvalda og miðað er við að framkvæmdir geti hafist eftir fjögur ár. Guðjón segir mikil vonbrigði að Alþingi náði ekki að afgreiða samgönguáætlun fyrir sumarfrí. Þar var gert ráð fyrir fjármagni í ákveðna undirbúningsvinnu.
„Það sem er verst fyrir okkur er að þetta setur stopp í ferlið. Af því að þegar þú ert að fara í stóra innviðauppbyggingu þá er undirbúningurinn ekkert síður mikilvægur heldur en framkvæmdin sjálf. Og ef þetta stopp varir lengi, ég hef nú alla trú á að þetta klárist á haustþingi ég trúi ekki öðru, þá líður tíminn og við fáum hann ekkert aftur.“
Heimild: Ruv.is