Home Fréttir Í fréttum Engir fjárfestar komnir inn í Coda Terminal verkefnið

Engir fjárfestar komnir inn í Coda Terminal verkefnið

96
0
Grettir Haraldsson er verkefnastjóri Coda Terminal. RÚV

Ekki er ljóst hvernig hafnarframkvæmdir í Hafnarfirði verða fjármagnaðar. Verkefnastjóri Coda Terminal segir það Hafnarfjarðar að leysa það mál, ekki hafi verið rætt við fyrirtækið um fjármögnun.

<>

Engir fjárfestar eru komnir inn í Coda Terminal verkefni Carbfix enn sem komið er og treystir fyrirtækið á að Hafnarfjörður standi straum af uppbyggingu hafnar til innflutnings á koldíoxíði. Verkefnastjóri Coda Terminal segir verkefnið hættulaust.

Ekki ljóst hvernig ný höfn verði fjármögnuð
Coda Terminal er undirfélag Carbfix og hyggur á stórfellda niðurdælingu koldíoxíðs í Hafnarfirði. Koldíoxíð verður flutt hingað til lands og Coda Terminal áætlar að með fullri afkastagetu sé hægt að dæla niður þremur milljónum tonna á ári.

Sitt sýnist þó hverjum; íbúar eru áhyggjufullir vegna framkvæmdanna sem hlaupa á tugum milljarða króna. Þá sagði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar í viðtali í gær, að ekki kæmi til greina að taka lán fyrir nýrri höfn sem myndi þjóna verkefninu.

„Við erum bara að hefja viðræður um þjónustugjöld og slíkt og það hefur ekki komið á borð enn sem komið er að Hafnarfjörður horfi til þess að við fjármögnum hafnaruppbygginguna sjálfa, en við erum bara rétt að hefja viðræður,“ segir Grettir Haraldsson, verkefnastjóri Coda Terminal.

Eru í viðræðum við einn fjárfesti
Það er ljóst að verkefnið er gríðarlega fjárfrekt. Áætlað er að það kosti vel yfir 50 milljarða áður en yfir lýkur. Carbfix hefur þegar tryggt sér 16 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu, en eftir standa þá um á fjórða tug milljarða.

„Við erum núna í viðræðum við fjárfesti sem er mjög áhugasamur um að stíga inn í þetta verkefni. Þeim viðræðum er ekki lokið þannig ég get ekki tjáð mig almennilega um þær. En við erum vissulega í viðræðum við fjárfesti,“ segir Grettir.

Spurður hvort það sé þá enginn fjárfestir kominn í verkefnið, svarar hann: „Nei, þetta er eðlilegur framgangsmáti allra verkefna. Fyrst byrjar maður að kanna tæknilegt raunhæfi verkefna, kanna áhrif þess á umhverfi og samfélag og svo fer maður að vinna í fjármögnun. Það er það sem við erum að gera núna.“

Ekki hættulegt verkefni
En íbúar í Hafnarfirði eru uggandi. Þúsundir eru hluti af Facebook-hópi þar sem skeggrætt er um verkefnið, auk þess sem á þriðja þúsund hafa mótmælt staðsetningu verkefnisins sem er nærri Völlunum í Hafnarfirði.

„Já, aftur kemur þetta inn á það hve vel fólk þekkir inn á aðferðina. Við þekkjum þessa aðferð mjög vel, við erum búin að vera að stunda hana mjög lengi.

Við vitum að hún er örugg og það er öruggt að stunda þessa starfsemi svona nálægt byggð eins og við stefnum að. Þetta er ekki hættuleg aðferð,“ segir Grettir Hann segist skilja vel áhyggjur bæjarbúa.

„Við viljum bara halda áfram að tala við íbúa Hafnarfjarðar og alla hagaðila til þess að útskýra af hverju þetta er ekki hættulegt.“

Heimild: Ruv.is