Home Fréttir Í fréttum Fjöldi íbúða í byggingu helst stöðugur

Fjöldi íbúða í byggingu helst stöðugur

66
0
Mynd: HMS.is

Alls eru 7.090 íbúðir í byggingu um land allt og hefur fjöldi þeirra haldist stöðugur á síðustu mánuðum. Tæplega 60 prósent þeirra eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og um fjórðungur í sveitarfélögum í nágrenni þess. Þetta kemur fram á mælaborði íbúða í byggingu, sem finna má á heimasíðu HMS.

<>

Mælaborðið birtir samantekin gögn og talningar fyrir íbúðarhúsnæði úr Mannvirkjaskrá HMS. Mannvirkjaskrá nýtir meðal annars gögn úr fasteignaskrá ásamt gögnum sem sveitarfélög landsins afhenda til HMS.

Meiri áhersla lögð á minni sér­býli

Sérbýli í byggingu eru 1.571 talsins og er tæplega helmingur þeirra á Suðurlandi eða um 704 sérbýli.  Flest þeirra sérbýla má finna í Sveitarfélaginu Árborg og Sveitarfélaginu Ölfus. Á höfuðborgarsvæðinu eru 354 sérbýli í byggingu og eru flestar af þeim í Hafnarfirði (105 sérbýli), Reykjavík (88 sérbýli) og Garðabæ (82 sérbýli).

Rúmlega fjórðungur sérbýla í byggingu eru 70-110 fermetrar að stærð en aðeins 15 prósent fullbúinna sérbýla eru í þessari stærð. Þetta gefur til kynna að byggingaraðilar leggi meiri áherslu á minni sérbýli en áður.

Nýj­ar fram­kvæmd­ir jafn­marg­ar og full­klárað­ar íbúð­ir

Fjöldi íbúða í byggingu samkvæmt mælaborði hefur verið stöðugur síðustu mánuði sem þýðir að nýjar framkvæmdir telja svipaðan fjölda íbúða og þær sem urðu fullbúnar á síðustu mánuðum.

Mælaborð íbúða í byggingu er háð skráningum sveitarfélaga í mannvirkjaskrá og birtast nýjar framkvæmdir í mælaborði ekki fyrr en sveitarfélög hafa afhent gögn til HMS. Enn er nokkur munur á mælaborðinu og niðurstöðum úr talningum HMS sem framkvæmdar eru tvisvar sinnum á ári en fer hann þó minnkandi.

Dæmi um nýjar framkvæmdir á síðustu tveimur mánuðum er Eirhöfði 1 (45 íbúðir), Skarðshlíð 20a (50 íbúðir), Grásteinsmýri 1 (30 íbúðir) og Kleifakór 2 (7 íbúða búsetukjarni).

Full­bún­um íbúð­um fjölg­ar mest í Reykja­vík

1.329 íbúðir hafa orðið fullbúnar það sem af er ári og þar af 1.315 nýjar íbúðir, en íbúð telst fullbúin ef hún hefur fengið lokaúttekt eða tekin í notkun. Fullbúnum íbúðum er að fjölga mest í Reykjavík þar sem fullbúnar íbúðir telja 343 það sem af er ári.

Utan höfuðborgarsvæðisins eru flestar fullbúnar íbúðir á Suðurnesjum eða 156 talsins.  Á Suðurlandi eru fullbúnar íbúðir 160 talsins og þá helst í Sveitarfélaginu Árborg.

Dæmi um íbúðir sem urðu fullbúnar á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur mánuðum er Eskiás 4 í Garðabæ (41 íbúð), Hringhamar 21 í Hafnarfirði (26 íbúðir), Borgartún 24 (64 íbúðir) og Snorrabraut 62 í Reykjavík (35 íbúðir) og Bjarkarholt 17-19 í Mosfellsbæ (58 íbúðir).

Heimild: HMS.is