Alls eru 7.090 íbúðir í byggingu um land allt og hefur fjöldi þeirra haldist stöðugur á síðustu mánuðum. Tæplega 60 prósent þeirra eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og um fjórðungur í sveitarfélögum í nágrenni þess. Þetta kemur fram á mælaborði íbúða í byggingu, sem finna má á heimasíðu HMS.
Mælaborðið birtir samantekin gögn og talningar fyrir íbúðarhúsnæði úr Mannvirkjaskrá HMS. Mannvirkjaskrá nýtir meðal annars gögn úr fasteignaskrá ásamt gögnum sem sveitarfélög landsins afhenda til HMS.
Meiri áhersla lögð á minni sérbýli
Sérbýli í byggingu eru 1.571 talsins og er tæplega helmingur þeirra á Suðurlandi eða um 704 sérbýli. Flest þeirra sérbýla má finna í Sveitarfélaginu Árborg og Sveitarfélaginu Ölfus. Á höfuðborgarsvæðinu eru 354 sérbýli í byggingu og eru flestar af þeim í Hafnarfirði (105 sérbýli), Reykjavík (88 sérbýli) og Garðabæ (82 sérbýli).
Rúmlega fjórðungur sérbýla í byggingu eru 70-110 fermetrar að stærð en aðeins 15 prósent fullbúinna sérbýla eru í þessari stærð. Þetta gefur til kynna að byggingaraðilar leggi meiri áherslu á minni sérbýli en áður.
Nýjar framkvæmdir jafnmargar og fullkláraðar íbúðir
Fjöldi íbúða í byggingu samkvæmt mælaborði hefur verið stöðugur síðustu mánuði sem þýðir að nýjar framkvæmdir telja svipaðan fjölda íbúða og þær sem urðu fullbúnar á síðustu mánuðum.
Mælaborð íbúða í byggingu er háð skráningum sveitarfélaga í mannvirkjaskrá og birtast nýjar framkvæmdir í mælaborði ekki fyrr en sveitarfélög hafa afhent gögn til HMS. Enn er nokkur munur á mælaborðinu og niðurstöðum úr talningum HMS sem framkvæmdar eru tvisvar sinnum á ári en fer hann þó minnkandi.
Dæmi um nýjar framkvæmdir á síðustu tveimur mánuðum er Eirhöfði 1 (45 íbúðir), Skarðshlíð 20a (50 íbúðir), Grásteinsmýri 1 (30 íbúðir) og Kleifakór 2 (7 íbúða búsetukjarni).
Fullbúnum íbúðum fjölgar mest í Reykjavík
1.329 íbúðir hafa orðið fullbúnar það sem af er ári og þar af 1.315 nýjar íbúðir, en íbúð telst fullbúin ef hún hefur fengið lokaúttekt eða tekin í notkun. Fullbúnum íbúðum er að fjölga mest í Reykjavík þar sem fullbúnar íbúðir telja 343 það sem af er ári.
Utan höfuðborgarsvæðisins eru flestar fullbúnar íbúðir á Suðurnesjum eða 156 talsins. Á Suðurlandi eru fullbúnar íbúðir 160 talsins og þá helst í Sveitarfélaginu Árborg.
Dæmi um íbúðir sem urðu fullbúnar á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur mánuðum er Eskiás 4 í Garðabæ (41 íbúð), Hringhamar 21 í Hafnarfirði (26 íbúðir), Borgartún 24 (64 íbúðir) og Snorrabraut 62 í Reykjavík (35 íbúðir) og Bjarkarholt 17-19 í Mosfellsbæ (58 íbúðir).
Heimild: HMS.is