Vegagerðin kynnti nýjan kolefnisreikni fyrir innviðaframkvæmdir á hádegisfundi í vikunni
Kolefnisreiknirinn hefur er kallaður LOKI. Það stendur fyrir lífsferilsgreining og kolefnisspor innviðaframkvæmda, en reiknirinn metur kolefnisspor innviðaframkvæmda á hönnunarstigi með lífsferilsgreiningu, eða kolefnisspor yfir líftíma mannvirkisins.
LOKI er þróaður af verkfræðistofunni EFLU fyrir Vegagerðina, í samstarfi við fleiri aðila, en hann er að norskri og danskri fyrirmynd. Reiknirinn verður notaður fyrir verk á vegum Vegagerðarinnar en er jafnframt aðgengilegur öllum sem hann vilja nota.
„Það er von Vegagerðarinnar að hann nýtist öðrum framkvæmdaraðilum og verði þeim innblástur að sinni nálgun,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Auðveldar val á efni og hönnun
Í tilkynningunni segir að LOKI muni gera Vegagerðinni kleift að samræma gerð lífsferilsgreininga fyrir innviði og opna fyrir þann möguleika að nýta kolefnisspor inn í valkostagreiningu. Hann muni einnig auðvelda val á efni og hönnun með tilliti til þess að draga úr kolefnisspori mannvirkisins.
Þá kemur fram að fyrsta útgáfa reiknsins nái yfir framleiðslu hráefna og flutning á verkstað, framkvæmdina sjálfa og stærra viðhald á líftíma mannvirkisins. LOKI muni svo á næstu árum þróast áfram til að ná yfir fleiri þætti og í takt við breytingar í stuðlum, orkugjöfum og hráefnum.
Tækifæri í hönnunarferlinu
Páll Valdimar Kolka Jónsson, starfsmaður Vegagerðarinnar, flutti erindi um tilvist, tilgang og möguleika reiknisins á fundinum í gær.
Í erindi hans kom fram að LOKI væri tól sem aðstoði Vegagerðina við að takast á við framtíðina. Þá sagði hann ástæðu þess að LOKI verði notaður við hönnunarferli vera þá að þar liggi stærstu tækifærin.
„Við vitum að þar eru stærstu tækifærin til þess að hafa áhrif á heildarkolefnisspor mannvirkja,“ sagði Páll.
Setji kolefnislosun skýrt fram
Magnús Arason, starfsmaður EFLU verkfræðistofa, flutti erindi um uppbyggingu og gerð reiknsins. Í erindi hans kom fram að syrkur hans væri að hann reikni kolefnislosunina og setji hana mjög skýrt fram sem losun á fermetrum mismunandi innviða.
„Það eitt sem við teljum dálítið mikilvægt og styrk á þessum kolefnisreikni samanborið við önnur verkfæri sem við höfum séð, er að við reiknum kolefnislosunina og setjum hana mjög skýrt fram sem losun á fermetrum mismunandi innviða. Þetta sjáum við fyrir okkur að verði stiki sem vonandi kemst í almenna umræðu og fær vægi í hönnun og samanburði milli framkvæmda,“ sagði Magnús.
Hvernig er reiknirinn notaður?
Einar Óskarsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, sýndi í erindi sýnum hvernig hægt sé að nota reikninn.
Í myndbandinu hér að ofan má sjá hvernig það er gert. Erindi Einars hefst á 19. mínútu.
Heimild: Mbl.is