Home Fréttir Í fréttum Fimmtán milljarða lán fyrir skemmda skóla

Fimmtán milljarða lán fyrir skemmda skóla

35
0
Aukafundur borgarstjórnar í dag. RÚV – Guðmundur Bergkvist

Borgarstjóri segir að lánið hafi verið ítarlega áhættumetið en að mikilvægt sé að fjármagna viðhald á skólabyggingum. Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir að betra hefði verið ef meirihlutinn hefði sinnt viðhaldi reglulega síðasta áratug.

<>

Borgarstjórn samþykkti síðdegis að taka jafnvirði fimmtán milljarða króna að láni frá Þróunarbanka Evrópuráðsins til þess að fjármagna endurbætur á skólabyggingum borgarinnar vegna myglu og raka. Ástæða þess að boðað var til aukafundar vegna lántökunnar er að fulltrúar Þróunarbankans eru staddir á Íslandi.

Lántakan var samþykkt með atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn sat hjá.

Einar Þorsteinsson.
RÚV – Guðmundur Bergkvist

„Við erum hérna að taka lán til þess að fjármagna viðhaldsátakið í leikskólum og grunnskóum og frístundaheimilum og það er afar mkilvægt að þær framkvæmdir séu fjármagnaðar,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.

Það eru háir vextir á Íslandi en á móti kemur að það er gengisáhætta í því fólgin að taka erlent lán en er þetta of mikil áhætta?

„Það er búið að áhættumeta þetta ítarlega, auðvitað er alltaf áhætta. Það er líka áhætta að fjármagna sig á háum vöxtum innanlands. Við þekkjum það hvernig vaxtastigið er hér.“

Hvenær kemur þá peningurinn í kassann?

„Það er gert ráð fyrir því í þessum samningi að við getum dregið strax á þetta lán á þessu ári en það ræðst líka af framgangi viðhaldsverkefnanna.“

Hildur Björnsdóttir.
RÚV – Guðmundur Bergkvist

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni segir ástæðu þess að borgin leiti til Þróunarbankans vera þá að gengið hefur illa fyrir borgina að fjármagna sig á innlendum skuldabréfamörkuðum, þátttaka hafi verið léleg í síðustu skuldabréfaútboðum.

„Þannig að markaðurinn hefur litla trú á rekstri borgarinnar. Núna þarf auðvitað að ráðast í þetta gríðarlega mikilvæga og umfangsmikla viðhaldsátak á leik- og grunnskólum borgarinnar. Og það er svolítið heimatilbúið vandamál.

Því að vegna þess að ef að meirihlutinn hefði sinnt viðhaldi á skólahúsnæði síðustu 10 árin eða svo að þá auðvitað værum við ekki stödd í þessum mikla vanda með þennan gríðarlega kostnað sem fylgir þessu uppsafnaða viðhaldi. Og svo ég tali nú auðvitað ekki um bara heilsutjónið og raskið á skólastarfi sem hefur verið hérna um alla borg.“

Heimild: Ruv.is