Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Fjórar brýr í smíðum samtímis á nýjum vegi yfir Hornafjarðarfljót

Fjórar brýr í smíðum samtímis á nýjum vegi yfir Hornafjarðarfljót

156
0
Brúin yfir sjálft Hornafjarðarfljótið verður 250 metra löng og verður steypt í tveimur færum. Ístak – Aron Örn Karlsson

Umfangsmiklar vegaframkvæmdir standa yfir í Hornafirði þar sem fjórar brýr eru í smíðum samtímis. Hringvegurinn styttist um tólf kílómetra.

<>

Miklar vegaframkvæmdir standa yfir í Hornafirði þar sem Ístak leggur nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót. Fjórar brýr eru í smíðum samtímis og er heildarkostnaður nú áætlaður 8,8 milljarðar króna. Heimamenn vilja breyta hönnuninni og setja hringtorg á veginn, til að auka öryggi.

Framkvæmdir við nýja Fljótaveg hófust í fyrravetur en hann styttir hringveginn um tólf kílómetra og tekur af þrjár einbreiðar brýr. Í staðinn er verið að smíða fjórar nýjar brýr og sú lengsta verður yfir sjálft Hornafjarðjarfljót. Steypumótið er engin smásmíði.

„Við erum að vinna í því að steypa þessa 250 metra brú. Hún verður tekin í tveimur færum og fyrsta færa er um 140 metrar. Við áætlum að steypa hana í júlí og svo seinni færuna í október,“ segir Aron Örn Karlsson, staðarstjóri Ístaks í Hornafirði.

Mótið er smíðað undir fyrri hlutann og svo fært til í stórum stykkjum og sá seinni steyptur í kjölfarið.

Vegfyllingin seig mest um einn og hálfan metra
Nýi vegurinn verður 19 kílómetrar með tengivegum. Leggja þurfti út langar fyllingar og fergja stæðið fyrir veginn mánuðum saman.

„Hann hefur sigið svona frá hálfum metra og upp í einn og hálfan metra þar sem þetta var verst. Undan álagi efnisins og yfirhæð sem við settum. Það er bara eins og við var búist,“ segir Aron Örn.

Um 70 manns vinna við framkvæmdina enda er verið að reisa fjórar brýr samtímis. Fulltrúar Ístaks sýndu okkur gervitunglamynd sem tekin var í síðasta mánuði en þar sést hvernig fljótinum er veittu um skarð í vegstæðinu á meðan brúarsmíðin stendur yfir.

Vilja fá hringtorg til að taka af tvö T-gatnamót með stuttu millibili
En hönnun vegarins þykir ekki fullkomin og bæjarráð Hornafjarðar hefur skorað á Vegagerðina að endurskoða hana vegna aukinnar umferðar. Í stað tveggja T-gatnamóta með stuttu millibili verði eitt hringtorg til Hafnar og Nesjahverfis.

„Þessi tvö T-gatnamót gera það að verkum að þeir sem þurfa að sækja hér inn í Nes þar sem er gríðarleg uppbygging, meðal annars þéttbýliskjarni, þurfa að þvera þjóðveg 1. Við höfum barist fyrir því að fá þarna hringtorg á leiðinni og eigum í samtali við Vegagerðina um það,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Ný vegur yfir Hornafjarðarfljót á að vera tilbúinn í desember á næsta ári.

Uppfært 27.05.2024 10:30: Í fyrri útgáfu kom fram að framkvæmdin kostaði á bilinu 6-7 milljarða en vegna verðbólgu á framkvæmdatíma hafa tölur hækkað og er kostnaður nú áætlaður 8,8 milljarðar.

Heimild: Ruv.is