Home Fréttir Í fréttum Rentur ehf með fyrstu Svansvottuðu bygginguna í Hafnarfirði

Rentur ehf með fyrstu Svansvottuðu bygginguna í Hafnarfirði

141
0
Guðrún Lilja Kristinsdóttir framkvæmdarstjóri Svansins, Ingimundur Þór Þorsteinsson og Adrian Sölvi Ingimundarson frá Rentur ehf. Mynd: Ust.is

RENTUR ehf fengu í vikunni afhent Svansleyfi fyrir fyrstu Svansvottuðu bygginguna í Hafnarfirði. Um er að ræða tvö fjölbýlishús með alls sjö íbúðum sem staðsett eru að Drangaskarði 11 og Hádegisskarði 20 í Hafnarfirði.

<>

Af þessu tilefni verður opið hús næstkomandi sunnudag (26. maí) milli klukkan 13:00-14:00 og verða forsvarsmenn fyrirtækisins og starfsfólk frá Svaninum á svæðinu.

Sjá má frekari upplýsingar um eignirnar hér.

Verkefnið hófst árið 2020, og voru Rentur því með fyrstu umsækjendum hérlendis til að hefja Svansvottunarferli eftir nýbyggingarviðmiðunum.

Á bakvið Rentur eru þeir feðgarnir Adrian Sölvi Ingimundarsson og Ingimundur Þór Þorsteinsson en þeir hafa staðið vaktina allt verkefnið og séð til þess að ströngum kröfum Svansins sé framfylgt.

„Einu sinni voru ekki öryggisbelti í bílum en í dag er enginn bíll seldur án öryggisbelta. Við lítum svo á að sama sagan sé að endurtaka sig í byggingarstarfsemi.

Núna byggjum við fyrstu umhverfisvottuðu byggingarnar en í náinni framtíð verða allar byggingar umhverfisvottaðar. Byggingarreglugerðin mun einfaldlega breytast til samræmis við þær reglur sem umhverfisvottun byggir á í dag.

Annar vinkill er sá að umhverfisvottuð hús verða klárlega í framtíðinni mun söluhæfari vara því hún virkar eins og ákveðin trygging fyrir gæðum.

Skemmtilegasti vinkillin er þó sá að Hafnarfjarðarbær veitti afslátt af lóðum ef byggt var umhverfisvottað en við kjósum að líta þannig á að allir hinir hafi greitt sekt frekar en að við höfum fengið afslátt,“ segir Ingimundur þegar hann er spurður um það afhverju þeir feðgar réðust í þetta verkefni.

„Umfram allt var það þó hugsjón sem réði því að við ákváðum að byggja Svansvottað“ bætir Adrian Sölvi við.

Verkefnið stjórnast af mikilli hugsjón þeirra feðga en almennt var lögð rík áhersla að vinna með vistvænar lausnir svo sem endurnotkun byggingarefna, og fleira.

Mynd: Ust.is

Til að mynda var jarðvegur sem kom úr grunni húsanna nýttur á næstu lóð, smíðaðar voru grindur sem fylltar voru með grjóti úr lóðinni, gangstéttahellur voru endurnotaðar úr öðru verkefni.

Þá var einnig mikil áhersla lögð á að nýta byggingarefnin sem best og voru CLT einingarnar hannaðar með það í huga að lítill sem enginn afskurður yrði eftir, og að festingar væru lágmarkaðar. Einnig var afgangur af klæðningu hússins notuð í að útbúa brunastokk á milli hæða og svona mætti lengi telja.

Í dag er umræðan um vistvæna mannvirkjagerð sífellt að verða háværari, en þó er langt í land og má enn gera betur. Þess vegna skiptir verulegu máli að framkvæmdaraðilar séu útsjónarsamir og vinni með þær lausnir sem aðgengilegar eru hverju sinni til að skapa þekkingu á markaðinum.

Heimild: Ust.is