Framkvæmdir hafa verið í gangi að undanförnu á vegum Norðurorku við Drottningarbraut og Leiruveg, en þær eru liður í lagningu nýrrar 355 mm vatnsveitulagnar frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar.

Þegar Akureyrarbær fór í framkvæmdir við lagningu göngustígs meðfram Leiruvegi nýtti Norðurorka tækifærið og kom vatnslögn þar fyrir, en lögnin mun flytja vatn frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar í framtíðinni.
Segja má að rörið sé „endalaust“, eins og það er orðað í stuttum pistli á Facebook-síðu Norðurorku. Komið var að því að þvera Drottningarbrautina og koma rörinu vestur fyrir hana, en „eins og staðan er núna er rörið „endalaust“.

Austan megin vantar tengingar frá Skógarböðum og að Eyjafjarðarbrú og vestan megin á eftir að tengja lögnina við innanbæjarkerfið á Akureyri,“ segir í pistli Norðurorku.
Heimild: Akureyri.net