Home Fréttir Í fréttum Vill bjóða NATO að byggja nýjan flug­völl í Fær­eyjum

Vill bjóða NATO að byggja nýjan flug­völl í Fær­eyjum

58
0
Heðin Mortensen borgarstjóri í viðtali við Stöð 2. Fyrir aftan er ráðhús Þórshafnar. EGILL AÐALSTEINSSON

Borgarstjóri Þórshafnar vill bjóða NATO að byggja nýjan alþjóðaflugvöll í Færeyjum. Hann segir núverandi flugvöll of lítinn til að geta þjónað Færeyingum til framtíðar.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá aðflug að eina flugvelli Færeyja, sem hefur löngum þótt erfitt vegna tíðrar þoku og sviftivinda. Flugbrautin í Vogum var fyrir tólf árum lengd með miklum jarðvegsfyllingum úr 1.250 metrum upp í 1.800 metra og geta núna meðalstórar farþegaþotur, eins og Airbus A320, notað völlinn, en þó með takmörkunum. Þá er brautin of stutt til að nýkeypt Boeing 757 flutningaþota FarCargo geti tekið á loft fulllestuð til New York.

„Flugvöllurinn er góður, hann virkar og það allt, en til lengri tíma litið er hann of lítill, flugbrautin er of stutt og það er ómögulegt að lengja hana,” segir Heðin Mortensen, borgarstjóri Þórshafnar.

Vesturendi flugbrautarinnar í Vogum hvílir á stórri jarðvegsfyllingu ofan bæjarins Saurvogs. Austurendinn er einnig á stórri fyllingu.
EGILL AÐALSTEINSSON

Vogaflugvöllur er vestast í Færeyjum og þótt neðansjávargöng til Straumeyjar hafi stytt aksturstímann til Þórshafnar niður undir fjörutíu mínútur telur borgarstjórinn þörf á nýjum flugvelli.

„Besti staðurinn fyrir framtíðarflugvöll er á Glyvursnesi. Við vinnum út frá því núna að flugvöllurinn þurfi að vera þrjú þúsund metra langur. Þá geta allar flugvélar lent þar án vandræða.”

Teikningin sýnir 3.000 metra langa flugbraut á Glyvursnesi við Þórshöfn.
LANDSVERK

Einn stærsti kosturinn við Glyvursnes er hvað það er stutt frá Þórshöfn, eða aðeins þrjá kílómetra frá útjaðri byggðarinnar. Heðin bendir jafnframt á að þetta flugvallarstæði sé betra veðurfarslega gagnvart ókyrrð og með minni aðflugshindrunum.

Nýr alþjóðaflugvöllur kostar sitt og borgarstjórinn hefur hugmynd um hvernig ætti að borga hann.

„Nú er talað um að NATO komi hingað og byggi ratsjárstöð.”

Glyvursnes er um þrjá kílómetra sunnan byggðarinnar í Þórshöfn. Þarna vill borgarstjórinn fá nýjan flugvöll.
EGILL AÐALSTEINSSON

Og segir að á spennutímum sem nú sé mikilvægt fyrir Atlantshafsbandalagið að hafa flugvöll í Færeyjum.

„Kafbátar sigla hérna um. NATO, gerið svo vel, komið hingað og gerið flugvöllinn núna,” segir Heðin og hvetur til þess að viðræður hefjist við Atlantshafsbandalagið.

„Við skulum hefja samningaviðræður, við höfum öll spil á hendi. Gerið svo vel. Eitthvað fyrir eitthvað. Þið fáið flugvöllinn og þið borgið. Þannig sé ég þetta gerast,” segir Heðin Mortensen, borgarstjóri Þórshafnar.

Heimild: Visir.is