Home Fréttir Í fréttum Fyrsta friðlýsta byggingin í Borgarnesi

Fyrsta friðlýsta byggingin í Borgarnesi

56
0
ljósmynd – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Borgarneskirkja var friðlýst í gær á 65 ára vígsluafmæli sínu. Bygging kirkjunnar var samfélagsverkefni á sínum tíma og arkitektinn Halldór H Jónsson gaf vinnu sínu við verkið.

<>

Umhverfisráðherra undirritaði friðlýsingu Borgarneskirkju í dag á 65 ára vígsluafmæli kirkjunnar. Kirkjan var teiknuð af Halldór H Jónssyni og setur mikinn svip á bæinn.

Kennileiti og stolt bæjarins
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra segir menningarminjar eins og húsafriðun einnig heyra undir sitt embætti.

„Þetta er bæði mjög merk bygging, glæsileg bygging og kennileiti og stolt bæjarins og hefur verið það frá upphafi.“ Guðlaugur Þór segir daginn hafa verið einkar ánægjulegan þar sem hann „Ég ólst náttúrulega upp í Borgarnesi.

Ég var hér fermdur og á hér ýmsar minningar, meðal annars frá skátamessum, svo þetta var tilfinningastund fyrir mig.“

RUV.is – Jóhanns Jónsson

Sömu sálmar sungnir og við vígslu kirkjunnar
Á uppstigningardag fyrir 65 árum var kirkjan í Borgarnesi vígð. Í morgun messaði séra Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back og kirkjukórinn söng sömu sálma og fluttir voru við vígsluathöfnina árið 1959. Kirkjan á sér þó lengri sögu því kirkjubyggingarsjóður var stofnuður árið 1927. Þá var bærinn enn í mótun en bæjarbúar vildu frekar sækja messu þar en að Borg á Mýrum.

Stjórnarformaður Íslands gaf vinnu sína
Borgnesingar söfnuðu fé í nokkra áratugi. Sjóðnum bárust áheit og gjafir auk þess sem konur bæjarins héldu basar og hlutaveltu og létu ágóðann renna í sjóðinn.

Halldór H Jónsson, arkitekt og viðskiptamaður sem teiknaði meðal annars Háteigskirkju og Hótel Sögu, ólst upp í Borgarnesi og teiknaði ýmsar byggingar þar sem enn standa.

Hann gaf alla vinnu sína og teikningar við byggingu kirkjunnar svo af henni mætti verða. Halldór var mikilvirkur í viðskiptum og var á sínum tíma þekktur sem stjórnarformaður Íslands vegna umsvifa sinna. Hann beitti sér fyrir því að kirkjan yrði reist á þessum stað þar sem hún blasti við úr öllu héraðinu.

Guðlaugur Þór bendir á að hluti af ástæðunni fyrir friðlýsingunni er samfélagssagan sem liggur að baki byggingunni. „Þetta var samfélagsverkefni í sinni tærustu mynd og hér lögðu allir íbúar bæjarins hönd á plóg til að þetta gæti orðið.“

ljósmynd – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Fyrsta friðlýsta byggingin í Borgarnesi
Pétur H Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun, segir tvíþætta ástæðu fyrir að friðlýsa kirkjuna nú. Engin önnur friðlýst bygging er í Borgarnesi auk þess sem Húsafriðunarnefnd hefur lagt áherslu á að friðlýsa verk eftir helstu arkitekta landsins.

„Það vildi til að það var engin friðlýst bygging eftir Halldór H. Jónsson svo það fór vel á því að velja Borgarneskirkju sem fulltrúa fyrir hans verk.“

Hefðbundin að utan, framúrstefnuleg að innan
Pétur segir gamlar hefðir og nýja strauma mætast í hönnun kirkjunnar. „Borgarneskirkja er sérstök bygging því hún er tiltölulega hefðbundin bygging, langkirkjubygging, að ytra formi með turni við vesturstafn en innandyra þá er hún í raun mjög nútímaleg og framúrstefnuleg fyrir sinn tíma.“

Heimild: Ruv.is