Hreiðar Leó Vilhjálmsson er þrettán ára drengur frá Grindavík. Hann vinnur nú að því að teikna hús Grindvíkinga sem flýja hafa þurft heimili sín.
Þrettán ára grindvískur strákur eyðir mestum sínum frítíma þessa dagana í að teikna hús Grindvíkinga. Teikningarnar hafa vakið mikla lukku og hafa nú borist um tuttugu pantanir.
Eftir að Hreiðar Leó og fjölskylda yfirgáfu hús sitt í Grindavík í rýmingu í nóvember ákvað hann að teikna mynd af húsinu og gefa mömmu sinni í jólagjöf.
„Mér fannst það bara mjög skemmtilegt og langaði að gera meira af því og þá datt mér í hug að bjóða upp á þetta,“ segir Hreiðar Leó. Þannig geti fólk átt myndir af húsum sínum, sem það mun mögulega ekki getað snúið í aftur.
Finnur fyrir þakklæti frá Grindvíkingum
Hreiðar finnur fyrir miklu þakklæti frá Grindvíkingum fyrir gerð myndanna en ljóst er að þær bera mikið tilfinningalegt gildi. Eitt verkefna Hreiðars var til dæmis að teikna grindvískt hús sem dæmt hefur verið ónýtt og verður sennilega rifið. Hann segist vissulega finna fyrir pressu við gerð slíkra mynda, en það sé líka heiður að fá verkefnið í hendurnar.
Einu tólin sem Hreiðar þarf eru blýantur, strokleður og reglustika. Í tölvu fyrir framan sig hefur hann svo myndir af húsunum til að teikna eftir.
Sér fyrir sér að vera teiknandi fram á sumarið
Hreiðari hafa borist um 20 pantanir en um fimm til sjö klukkustunda vinna er að baki hverri mynd. „Ég reyni að taka eitt hús á hverjum tveimur dögum. Ef það halda áfram að verða einhverjar pantanir þá mögulega verð ég teiknandi bara fram á sumarið,“ segir Hreiðar og hlær.
Heimild: Ruv.is