Fyrirtækið Metalogalva í Portúgal átti lægsta tilboðið í stálmöstur þriggja háspennulína Landsnets, Kröflulínu 4, Þeistareykjalínu 1 og Suðurnesjalínu 2, en alls bárust 15 tilboð í möstrin og voru 12 þeirra undir kostnaðaráætlun.
Útboði í möstur háspennulínanna þriggja var skipt í þrjá hluta. Í þeim fyrsta voru Kröflulína 4 og Þeistareykjalína 1, Suðurnesjalína 2 var í hluta tvö og allar línurnar í þeim þriðja. Gátu bjóðendur boðið í útvegun á stáli fyrir hvorn hluta fyrir sig, eða báða saman. Alls bárust 15 tilboð, þar af 12 í báða hlutana en þrjú tilboð bárust bara í útvegun stáls í Suðurnesjalínu 2.
Tilboðin voru opnuð hjá Landsneti fyrir helgi og reyndust 12 þeirra undir kostnaðaráætlun. Lægsta tilboðið átti Metalogalva í Portúgal sem bauð tæpar 3,2 milljónir evra í báða hlutana, eða um 59% af kostnaðaráætlun.
Landsnet mun nú fara yfir tilboðin og í framhaldi af því verður rætt við lægstbjóðendur.
Gert er ráð fyrir að möstur Kröflulínu 4, frá Kröflu að Þeistareykjum, komi til landsins í sumar en möstur Þeistareykjalínu 1, frá Þeistareykjum að Bakka, og Suðurnesjalínu 2, milli Hafnarfjarðar og Rauðamels á Reykjanesi, verði afhent í byrjun næsta árs.
Heimild: Landsnet.is