Home Fréttir Í fréttum Stefnt á að gervigrasvöllurinn í Neskaupstað verði tilbúinn í byrjun júní

Stefnt á að gervigrasvöllurinn í Neskaupstað verði tilbúinn í byrjun júní

29
0
Mynd: Austurfrett.is

Framkvæmdir standa nú yfir við gervigrasvöllinn í Neskaupstað. Hann verður stækkaður upp í löglega keppnisstærð, skipt um gervigras og annar búnaður í kring endurnýjaður.

<>

Verkið hófst síðasta haust þegar steyptur var stoðveggur neðan við völlinn og fyllt að honum. Með því næst að breikka hann um fimm metra þannig hann verði löglegur til keppni í Íslandsmóti í öllum flokkum, nema efstu deild karla.

Árið 2006 var gervigras sett á gamla malarvöllinn í Neskaupstað. Það var orðið sliti og þörf á endurnýjun. Ákveðið var að nýta tækifærið til að gera meira í leiðinni en nýtt gras er á leiðinni til landsins.

Sett verður upp flóðlýsing við völlinn. Til þessa hafa verið í kringum hann átta kastarar en nú koma upp ljósmöstur þannig að ekki verða skuggar á vellinum. Um er að ræða lýsingu til æfinga en ekki keppni.

Vökvunarkerfi verður einnig sett upp. Það samanstendur af þremur stútum sem lyftast upp úr grasinu þegar þarf til að halda réttu rakastigi í því og draga úr slysahættu.

Völlurinn er sundurgrafinn þessa vikuna því verið er að grafa fyrir lögnum. Guðmundur Helgi Sigfússon, sem stýrir verkinu fyrir hönd SÚN, segir að stefnt sé að taka endurbættan völlinn í notkun í byrjun júní.

Framkvæmdum lýkur ekki þá því fyrirhugað er að setja upp stúku sem rúmar 300 manns í sæti. Þar sem vallarsvæðið er aðþrengt þarf að huga vel að hvernig henni verði best fyrirkomið. Þess vegna er ekki ljóst hvenær hún verður byggð en stefnt er á að það verði ekki síðar en sumarið 2025.

SÚN stendur að baki framkvæmdunum og fjármagnar þær. Tilkynnt var um það á 100 ára afmæli Þróttar í fyrra. Kostnaður við endurbæturnar er talinn vel á þriðja hundrað milljón króna.

Heimild: Austurfrett.is