Forsvarsmenn Vaðlaheiðarganga eru ánægðir með framvindu við gröft ganganna og eru bjartsýnir á að geta greitt til baka það lán sem ríkið veitti fyrirtækinu fyrir framkvæmdinni. Nær ár er liðið frá því að gröftur stöðvaðist í Fnjóskadal en stefnt er að gegnumslagi um næstu áramót.
Síðastliðnar vikur hefur gröftur gengið ágætlega Eyjafjarðarmegin. Þar hefur borgengið komist áfram um 30-40 metra í hverri viku síðustu mánuði, sem þykir nokkuð eðlileg framvinda.
Valgeir Bergmann,framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., segir að menn séu ánægðir með gang mála, unnið sé eins hratt og aðstæður leyfi.
Tæpt ár er liðið frá því að vatnsæð opnaðist Fnjóskadalsmegin og síðan þá hefur þar ekkert verið sprengt.
„Við erum ekki að flýta okkur of mikið því við viljum ekki taka neina sénsa. Við viljum fara þetta öruggt og hægt en við vonumst til þess að eftir nokkrar vikur, þá verði hægt að hefja gangnagröft að nýju, hérna frá Fnjóskadal”, segir Valgeir.
Frá því að gröftur hófst í júlí 2013 hefur gengið á ýmsu. Ágætlega gekk fyrsta hálfa árið en þá fór heitt vatn Eyjafjarðarmegin að gera verktakanum lífið leitt. Raunar hefur það gert það alla tíð síðan. Rúmlega ári síðar var byrjað að grafa Fnjóskadalsmegin, þegar ákveðið var að stöðva gröft Eyjafjarðarmegin vegna óbærilegs hita í göngunum.
Þar gekk ágætlega að grafa, allt þar til í apríl 2015, þegar vatnsæðin opnaðist og fyllti göngin. Borgengið flutti sig þá aftur í Eyjafjörðinn og hélt þar áfram, þar sem gröftur hefur gengið ágætlega.
Nú er búið að grafa 70% af göngunum og þrátt fyrir tafir er Valgeir bjartsýnn á að geta greitt lánið til baka: „Þetta kemur allt til baka, þetta mun allt verða greitt upp af þeim sem nota göngin þannig að skattgreiðendur í raun og veru eiga ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur”
Heimild: Ruv.is