Home Fréttir Í fréttum Fljótsdalshérað leyfði hótelálmu án skipulags

Fljótsdalshérað leyfði hótelálmu án skipulags

131
0
Mynd: RÚV- Rúnar Snær Reynisson - Eyvindará
Fljótsdalshérað veitti byggingarleyfi fyrir stórri hótelálmu að Eyvindará 2 án þess að nýtt deiliskipulag væri til fyrir svæðið eða aðalskipulag heimilaði svo umfangsmikla starfsemi. Nágrannar telja að þeim hafi verið stillt upp við vegg á fundi þar sem þeir voru krafðir svara um hvort þeir legðust gegn þessum áformum. Aðalskipulag leyfir aðeins gistingu í smáhýsum og fyrst nú er verið að auglýsa aðal- og deiliskipulag sniðið að starfseminni.

Fljótdalshérað auglýsti nýverið breytingu á aðalskipulagi við Eyvindará 2, rétt utan við Egilsstaði. Umfang verslunar og þjónustu hefur hingað til verið takmarkað við ferðaþjónustu með gistingu í smáhýsum. Nú verður orðið smáhýsi tekið út úr skipulaginu vegna þess að í nokkur ár hefur ferðaþjónusta verið rekin þarna í engu smáhýsi heldur 600 fermetra hótelálmu með 16 herbergjum. Hún bættist við talsvert gistirými sem fyrir var og jók mjög truflun og átroðning að mati íbúa að Eyvindará. Þar eru tvö íbúðarhús og sumarbústaður; Agnes Brá Birgisdóttir býr á Eyvindará 4. „Hér er komið risastórt hótel þannig að nú er umferð mikið meiri og litli vegurinn okkar þolir þetta ekki. Brúin er illa farin orðin. Auk þess er mikið ónæði af ferðamönnum á kvöldin. Auðvitað vilja þeir skoða sitt nánasta umhverfi,“ segir Agnes.

<>

Annar eigenda hótelsins segir í samtali við fréttastofu að honum sé kunnugt um truflun af ferðþjónustunni, ekki síst vegna skorts sá bílastæðum en til standi að stækka þau. Deiliskipulagið sem hefur verið auglýst á meðal annars að koma betra skikki á umferð við hótelið.

Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun gera lög ráð fyrir því að samþykkt deiliskipulag liggi fyrir áður en byggingaleyfi er gefið út. Svo virðist ekki hafa verið í þessu tilfelli. Í svari byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs til fréttastofu kemur fram að hótelálman var ekki á gildandi deiliskipulagi þegar byggingarleyfið var gefið út. Þá hafi hins vegar verið unnið að því að breyta skipulaginu. Tillaga sem nú sé auglýst hafi verið í vinnslu síðan í desember 2012. Haustið 2012 hafi eigendum og íbúum verið send grenndarkynning og á fundi í desember það ár hafi þeir sagt að þeir myndu ekki gera athugasemdir.

Agnes segir að þá hafi hún ekki gert sér grein fyrir að byggingin væri á skjön við bæði aðal- og deiliskipulag og er ekki ánægð með vinnubrögðin. „Við vorum krafin svara um það hvort við gerðum einhverjar athugasemdir. Okkur leið dálítið þannig eins og okkur hefði verið stillt upp við vegg. Það var byrjað að byggja og við vissum af því að hótelið eða steypueiningar voru þegar í framleiðslu. Við þurfum alltaf að reyna að bregðast við því sem þegar er orðið.“

Heimild: Ruv.is